Um 80 manns voru í Sögusafninu á Hvolsvelli laugardaginn 8. júlí sl. Tilefnið var opnun sýningar með verkum Ólafs Túbals, en í dag 13. júlí eru 120 ár liðin frá fæðingu hans. Hann andaðist 27. 3. 1964.
Ólafur Túbals í Múlakoti hefur verið nefndur fremsti málari Fljótshlíðarinnar. Hann var listamaður, lífskúnstner, bóndi og bóhem, allt í senn og með misjöfnum áherslum. Hann var líka gestgjafi hótelsins i Múlakoti, þar sem helsta hótel Suðurlands var rekið í áratugi. Foreldrar Ólafs, Guðbjörg Þorleifsdóttir og Túbal Magnússon, bjuggu öll sín búskaparár í Múlakoti. Þau voru gestrisin og vildu leysa allra vanda og jafnerfitt er að segja hvenær eiginlegur hótelrekstur hófst í Múlakoti og hvenær honum lauk.
Ásgrímur Jónsson var fyrsti listamaðurinn sem dvaldi í Múlakoti fyrst og fremst til að stunda list sína. Í fótspor hans fetuðu margir aðrir listamenn, innlendir sem erlendir, og Ólafur hafði næmni til að tileinka sér málaralistina af þeim. Eins fór hann í tvær stuttar náms- og kynnisferðir til Danmerkur.
Myndirnar á afmælissýningunni eru margar og ólíkar, enda var leitast við að sýna ýmsar hliðar á Ólafi sem málara. Hann hafði vald á ýmsum aðferðum í listsköpun sinni, beitti blýanti, gerði pennateikningar, notaði litkrít, vatnsliti og ýmsa tækni í meðferð olíulita. Myndirnar eru ýmist frá Skógasafni eða úr eigu vina Múlakots. Sýningarstjóri er Katrín Óskarsdóttir.
Við opnun sýningarinnar hélt Björn Bjarnason f.v. ráðherra mjög fróðlegt erindi um Ólaf og söngkonan Aðalheiður M. Gunnarsdóttir söng nokkur lög við undirleik Guðjóns Halldórs Óskarssonar.
Sýningin verður opin á opnunartíma Sögusafnsins og stendur yfir til 20. ágúst. Aðgangur er ókeypis. Óhætt er að hvetja fólk til að leggja leið sína í Sögusafnið á Hvolsvelli og skoða frábæra sýningu.