1.7 C
Selfoss

Frábær tilþrif sáust á Rangárbökkum um helgina

Vinsælast

Íslandsmót í hestaíþróttum fór fram á Rangárbökkum við Hellu dagana 6.–9. júlí sl. Hestamannafélagið Geysir stóð að mótinu og voru aðstæður eins og best verður á kosið. Guðmundur Björgvinsson og Glúmur frá Þóroddsstöðum settu Íslandsmet í 100 m skeið, fóru sprettinn á tímanum 7,08 sek. Fyrra met, 7,18 sek, áttu Sigurður Sigurðarson og Drífa frá Hafsteinsstöðum og var sett 2007. Nýverið fóru þó Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu 2 á tímanum 7,17 sek en það bíður staðfestingar. Í skeiðgreinum náðust svakalegir tímar. Í 100 m skeiði fór 21 hestur af 25 sem tóku þátt undir 8 sek sem er gríðarlega góður árangur. Keppni var hörð í öllum greinum og var magnað að horfa á úrslitin á laugardegi og sunnudegi. Í fjórgang stóð uppi sem sigurvegari Artemisia Berthus á Korg frá Ingólfshvoli og í öðru sæti var Elin Holst á Frama frá Ketilsstöðum. Íslandsmeistaratitillinn kom í hlut Jakobs Svavars Sigurðssonar á Júlíu frá Hamarsey þar sem hvorki Artemisia né Elin hafa íslenskan ríkisborgararétt. Artemisia hlaut hina eftirsóttu FT-fjöður fyrir frábæra sýningu og vandaða reiðmennsku. Heildarúrslit mótsins má nálgast á heimasíðu hestamannafélagsins Geysis www.hmfgeysir.is.

Artemisia Berthus og Korgur frá INghóli. Helga Þóra Steinsdóttir.

Íslandsmeistarar í hestaíþróttum 2017:
Tölt: Bergur Jónsson og Katla frá Ketilsstöðum.
Fimmgangur: Þórarinn Ragnarsson og Spuni frá Vesturkoti.
Samanlagður fimmgangssigurvegari: Teitur Árnason og Hafsteinn frá Vakurstöðum.
Fjórgangur: Jakob Svavar Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey.
Slaktaumatölt: Jakob Svavar Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey.
Samanlagður fjórgangssigurvegari: Jakob Svavar Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey.
Gæðingaskeið: Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Ása frá Fremri-Gufudal.
250m skeið: Ævar Örn Sigurðsson og Vaka frá Sjávarborg.
150m skeið: Davíð Jónsson og Irpa frá Borgarnesi.
100m skeið: Guðmundur Björgvinsson og Glúmur frá Þóroddsstöðum.

Nýjar fréttir