-5 C
Selfoss
Home Fréttir Tvö Íslandsmet sett á Selfossi

Tvö Íslandsmet sett á Selfossi

0
Tvö Íslandsmet sett á Selfossi

Tvö Íslandsmet voru sett í gær á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fer á Selfossi um helgina. Karlasveit FH bætti Íslandsmetið í 4×100 m boðhlaupi félagssveita um 0,71 sek., hljóp á 41,15 sek. Sveitina skipuðu Kol­beinn Höður Gunnarsson, Ari Bragi Kárason, Dag­ur Andri Ein­ars­son og Kristó­fer Þorgríms­son. Þá setti kvennasveit ÍR einnig Íslandsmet í 4×100 m boðhlaupi félagssveita. Sveitin hljóp á 46,42 sek. og bætti metið um 0,46 sek. Sveitina skipuðu Tiana Ósk Whitworth, Katrín Ant­ons­dótt­ir, Helga Mar­grét Har­alds­dótt­ir og Guðbjörg Jóna Bjarna­dótt­ir. Ásdís Hjálmsdóttir setti meistaramótsmet er hún kastaði spjóti 56,75 m.

Mikil keppni var í 100 m hlaupi karla. Kolbeinn Höður og Ari Bragi komu hnífjafnir í mark á sama tíma 10,89 sek. Kolbeini var dæmdur sigur á sjónarmuni. Juan Ramon Bosque og Björg­vin Brynj­ars­son komu einnig jafn­ir á mark á tímanum 11,20 se. Juan Ramon var dæmdur sjón­ar­mun á und­an og hlaut því þriðja sætið.

Tveir keppendur frá HSK/Selfoss urðu Íslandsmeistarar. Guðrún Heiða Bjarna­dótt­ir sigraði í lang­stökki, stökk 5,78 m og Krist­inn Þór Krist­ins­son sigraði í 1.500 m hlaupi, hljóp á tímanum 4:00,40 mín. Þá varð Ástþór Jón Tryggvason annar í 3.000 metra hindrunarhlaupi á 10:37,26 mín. Þess má geta að þetta var í fyrsta skipti sem keppt er í hindrunarhlaupi á Selvossvelli.

Mótið hófst kl. 11 í morgun og lýkur með 4×400 m boðhlaupum karla og kvenna. Þau fara fram um kl. 16.