Leirlistarkonan Ingibjörg Klemenz er með leirkeraverkstæði og gallerí að Hellugljúfri 2 Ölfusi.
Inga, eins og hún er oft kölluð, var búin að ganga með það í maganum í mörg ár að læra leirlist. Hún hafði sótt mörg námskeið til Steinunnar Marteinsdóttur leirlistarkonu áður en hún lét gamlan draum rætast, þá orðin 36 ára er hún sótti um inngöngu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1996. Útskrifaðist hún úr leirlistardeild árið 2000, sem þá var orðin Listaháskóli Íslands.
Inga starfrækti Gallerí Dungu ásamt Gunnhildi Þórarinsdóttur við Gömlu höfnina í Reykjavík um tíma, þar sem hún var líka með vinnustofu sína.
„Ég flutti í Ölfusið að Hellugljúfri 2 árið 2014 og er þar í dag með vinnustofu ásamt því að reka þar lítið gallerí. Þar gefur að líta ýmis konar handverk bæði eftir Helgu Unnarsdóttur leirlistarkonu og mig,“ segir Inga. Í galleríinu er líka fallegt handprjón eftir ýmsar hannyrðakonur, ásamt útskurði og ýmsum minjagripum eftir Erlend Magnússon frá Hveragerði.
„Við höfum verið að Rakubrenna og nýtt okkur hinar ýmsu brennsluaðferðir í gegnum árin og núna langar okkur að gefa fólki kost á að koma og upplifa stemninguna með okkur. Rakubrennsla fer þannig fram að brennt er í gasofni og útkoman getur orðið mjög forvitnileg hverju sinni. Það verður opið sunnudaginn 9. Júlí frá kl. 14-18 og verður þá heitt á könnunni og auðvitað sól í heiði og sól í hjarta,“ segir Inga glaðlega. Fyrir þá sem vilja kíkja við á sunnudaginn og sjá spennandi brennsluaðferðir leirmuna á lóðinni við Hellugljúfur 2, í Ölfusinu er ekið inn Hvammsveginn við Gljúfurárholt.
-hs