Fjölskylduganga á Hellisfjall á laugardag

Mynd: dfs.is. Úr safni.
Mynd: dfs.is. Úr safni.

HSK tekur þátt í verkefninu fjölskyldan á fjallið líkt og undanfarin ár. Sl.laugardag var gengið á Reykjafjall við Hveragerði og laugardaginn 1. júní verður gengið með póstkassann á Hellisfjall á Landmannaafrétti. Gangan hefst kl. 11:00 frá skálasvæðinu við Landmannahelli. Göngustjóri verður Guðni Olgeirsson leiðsögumaður og áhugamaður um gönguleiðir að fjallabaki. Allir velkomnir og það kostar ekkert að taka þátt.

Nánar um fjallið

Hellisfjall er grasi gróið fjall sem er auðvelt uppgöngu. Til að komast að fjallinu frá þjóðvegi 1, er best að fara upp Landsveg 26 við Landvegamót. Ekið er í 50 km á malbiki þar til komið er að Dómadalsleið, fjallveg númer F225. Frá vegamótum Landvegar og Dómadalsleiðar eru 30 km að Landmannahelli. Aka þarf yfir eina óbrúaða á á leiðinni og því er nauðsynlegt að vera á fjórhjóladrifnum bíl.