3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Hveragerði var hans skjól og Seyðtún hans musteri

Hveragerði var hans skjól og Seyðtún hans musteri

0
Hveragerði var hans skjól og Seyðtún hans musteri
Myndlistarmaðurinn Kristinn Pétursson fæddist í Dýrafirði 1896 og endaði ævina í Hveragerði 1981.

Kristinn Pétursson (1896-1981) myndlistarmaður braust úr einangrun og örbirgð Vestfjarða til mennta í myndlist á Íslandi og erlendis í upphafi síðustu aldar. Hann haslaði sér völl meðal þekktustu listamanna á landinu á 3. og 4. áratug síðustu aldar og hélt fjölda myndlistasýninga hér heima auk þess að taka þátt í samsýningum erlendis.

En 1954 hverfur Kristinn úr listaheiminum og einangrar sig frá þeim kreðsum, sem hann áður kepptist um athygli og viðurkenningu frá. Nafn hans féll í gleymsku þar til hann lést. Síðan hafa verk hans verið sýnd á fjórum stærri sérsýningum, sem margar hafa snúist um arfleifð hans og sögu. Síðasta sýning á verkum Kristins var Tómið hjá Listasafni Árnesinga árin 2012–2013.

Seyðtún í Hveragerði

Í upphafi 5. áratugarins velur Kristinn Hveragerði sér að heimili og vettvang til listsköpunar. 1943 byggði hann húsið Seyðtún sem er eitt fárra húsa á Íslandi byggt af listamanni sem skjól fyrir sköpun og sýningar á list hans. 1954 heldur Kristinn sína síðustu myndlistasýningu í Seyðtúni.

Næstu 27 árin, alveg fram í andlát sitt, hélt Kristinn áfram að þróa list sína og skrifa upp endurminningar og hugleiðingar sínar um listina, lífið og samtíð sína. Seyðtúni breytti hann í innhverfa höggmynd, svo notuð séu hans eigin orð, þar sem allt innanstokks var orðið hluti af listinni, hvort heldur ljósin, mublurnar eða annað. Kristinn skrifaði handrit að þremur bókum sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafninu.

Í listamannabænum Hveragerði hefur enginn listamaður átt eins samfelldan og afkastamikinn tíma í bænum og Kristinn. Og Kristinn valdi Hveragerði af fúsum vilja, en var ekki hrakinn þangað eins og svo margir af hinum þekktari listamönnum, sem sóttu þangað fyrst og fremst vegna lágs húsnæðis- og hitunarkostnaðar.

Árið 1923 flutti Kristinn til Noregs og hóf nám í myndlist. Næsta áratuginn dvaldi hann að mestu erlendis, lengst af í Noregi en einnig í Danmörku, Frakklandi, Austurríki og víðar.

Skráning á arfleifð Kristins

Viktor Sveinsson vinnur að varðveislu og skráningu á arfleifð Kristins Péturssonar. Helstu áhersluþættir og verkefni eru:

Að safna ljósmyndum og heimildum um Kristinn.

Að skrá og afrita listaverk Kristins hvar sem þau finnast.

Að vinna að útgáfu ritverka Kristins.

Að koma Seyðtúni aftur í upphaflegt form og nýtingu.

Allt snýst þetta um að byggja undir nafn og virðingu Kristins sem þess einstaka listamanns sem hann var. Hveragerði var hans skjól og Seyðtún hans musteri. Hann skrifar mikið um húsið, útsýnishringinn, galdurinn í seyðnum frá hverasvæðinu, tilraunir með ræktun í garðinum og hönnun hússins. Undir lok ævi sinnar hugleiðir Kristinn hvort húsið sé kannski hans mesti listgripur.

Hann ritar einnig:

„Sennilega er ég og vinnustofa mín næstum orðin eitt í vissum skilningi. Ég get ekki hugsað mér að vinna að list annars staðar og oft finnst mér hjákátlega, er ég bý í venjulegu húsi.“

Um hina innhverfu höggmynd segir hann annars staðar:

„Með hæfilega miklu magni af höggmyndum, sem eru gerðar fyrir sitt umhverfi í húsinu, verður húsið sjálft eða vistarverur þess að nokkurs konar innhverfri höggmynd „konkord“. Þeirri tegund höggmynda, sem umlykur mann og er því í eins nánum tengslum við mann og frekast getur orðið. Mótsett við útihöggmynd, sem maður skoðar utanfrá og getur gengið í kringum. Ekki svo að skilja, að inn í þeirri innhverfu höggmynd geti ekki farið vel málverk á vissum stöðum, til að gera myndina ennþá ríkar og tilbreytilegri.“

Nokkur orð til viðbótar frá Kristni um Seyðtún:

„Í raun réttri má segja um hús mitt Seyðtún, að það hafi aldrei verið smíðað líkt og önnur hús, þetta eða hitt árið. Það hefur smávaxið sig til að verða hús meða húsa, gildir það þó enn frekar að innan. Það hefur þann kost, að í raun hef ég búið í mörgum húsum hér í Seyðtúni. Umhverfi mitt hér hefur aldrei staðnað til lengdar frekar en myndlistarstörf mín hér. „Síungt gamalmenn í splunkunýju gömlu húsi“ sagði eitt sinn kunningi minn, er hann kom hér, eftir að ég hafði uppmublerað það með hljóðlátum höggmyndum.“

Seyðtún, hús Kristins, var vinnustofa, heimili og einnig sýningarsalur listamannsins. Í október árið 1954 hélt Kristinn sýningu í Seyðtúni sem var hans síðasta sýning. Eftir það vann hann í listrænni einangrun frá umheiminum í tæpa þrjá áratugi, eða þar til hann lést árið 1981.

Safn verka Kristins

Stærsti hluti Listasafns ASÍ er safn verka Kristins, alls um 200 verk. Listasafn ASÍ fer einnig með höfundarrétt Kristins. Viktor hefur samið um útgáfurétt á ritverkum Kristins og birtingu á ljósmyndum af verkum í eigu Listasafnsins í þeim útgáfum.

Viktor hefur unnið sl. 4 ár að samantekt og rannsóknum á arfleifð Kristins Péturssonar.

Undirliggjandi í öllu því starfi sem að framan er tilgreint er sá draumur að varpa ljósi á sögu einfara í litlu þorpi. Kristinn fæddist á smákoti í Dýrafirði og ólst upp við aðstæður sem kröfðust líkamlegs atgerfis og hlýðni við yfirvaldið – hvort sem það var húsbóndinn (fóstri munaðarleysingjans) eða formaðurinn á skútunni. Kristinn var sérvitur og viðkvæmur einfari frá því hann fyrst man eftir sér. Þessu lýsir hann vel í endurminningum sínum. Segja má að í dag hefði Kristinn sjálfsagt ekki verið með í fótbolta eða leitað almennt í hópíþróttir og lætin í íþróttahúsinu; hann væri skrítni krakkinn í þorpinu sem færi sínar leiðir. Hann yrði sjálfsagt fyrir einelti, rækist illa í hópi og ekki víst að kennarar skildu hann eða virtu. Hann vildi hafa allt „komplett“ eins og hann sjálfur segir. Kannski á einhverfu/aspergenrófi með þráhyggju fyrir listum og hinu torséða og fagra í umhverfi okkar.

Vonandi getur saga hans og verk orðið öðrum snillingum til hvatningar og okkur hinum áminning um að líta skrítna krakkann í öftustu röð í öðru ljósi.

Handrit Kristins eru þrjú og nefnast:

Skorinn var mér þröngur stakkur – sem fjallar að mestu um uppvöxt á Vestfjörðum og fyrri hluta ævinnar.

Úthverfar myndlistastundir – um myndlistamenntun hans, samfélag listamanna o.fl.

Töfratáknin – hugleiðingar um listina og lífshlaup hans.

Síðasta rit Kristins verður gefið út í ár. 2018 kemur önnur bók hans út og árið 2019 mun fyrsta bókin birtast.

Viktor gefur út bækurnar og sinnir ritstjórn ásamt Markúsi Þór Andréssyni listfræðingi og Ámunda Sigurðarsyni grafískum hönnuði.