3.9 C
Selfoss

Fisléttur sumartoppur

Vinsælast

Sumarið er komið á klakann og ef það er ekki til góður toppur í fataskápnum má bjarga því í hvelli með nokkrum unaðsstundum við tifandi prjóna. Toppurinn er prjónaður úr garni sem heitir Miranda og er frá Cewec en það er til í mörgum fallegum litum. Garnið er sérlega mjúkt og létt, blanda af hör og bómull. Spuninn er misgrófur og þræðirnir ögn mislitir og því er áferðin skemmtilega hrá. Blátt 2 dk, hvítt 2 dk, brúnt 1 dk. Langur og stuttur hringprjónn no 4. Prjónamerki 6 stk. Stærð S/M, vídd 96 sm, sídd að ermum 40 sm.

Skammstafanir: suá = slá upp á prjóninn, úh = prjóna 2 l saman, úv = taka eina l óprj, prjóna næstu og steypa þeirri óprj yfir.

Munsturprjón bolur: 1. umf: 1 br, * úhh, 5 sl, suá, 1 sl, suá, 5 sl, úv, 1 br .  * – *  alls x 4. 2. umf:  1 br, *15 sl, 1 br *, * – * alls x 4. Þannig áfram til skiptis 1. og 2. umf.

Munsturprjón ermi: 1. umf: Suá, 5 sl, úv, 1 br, úh, 5 sl, suá.  2. umf: 7 sl, 1 br, 7 sl. Þannig áfram til skiptis 1. og 2. umf.

Prjónaðar eru rendur, 4 umferðir hver rönd, sjá litaskiptingar á mynd.

Bolur
Fitjið upp 202 l  með bláu á prjón no 4. Tengið saman í hring og prjónið tvo garða, 1 umf br, 1 umf sl, 1 umf br. Í síðustu umferðinni er sett prjónamerki í báðar hliðar (101 l hvorum megin) og einnig utan um 51. l á hvorum bolhluta en það er miðlykkjan í munstrinu. Prjónið 2 umf sléttar nema 2 brugnar l, sína hvorum megin við merkin í hliðunum. Þær eru prjónaðar brugnar alla leið upp. Næsta umferð telst vera fyrsta umferðin af fjórum sem prjónaðar eru með bláu.

* Prjónið brugnu lykkjuna og síðan 17 sléttar. Setjið prjónamerki. Hér byrjar munsturprjónið sem er 65 l. Prjónið 17 l sléttar og eina brugna*. Endurtakið * – * á seinni bolhluta.

Prjónið 40 sm eða meira eftir því hvað bolurinn á að vera síður. Síðasta umferðin ætti að vera 4. umferðin í hvítu á undan bláu en hættið að prjóna þegar 4 l eru eftir að prjónamerkinu. Setjið 8 l á hjálparnælu  og geymið bolinn.

Ermar
Fitjið upp 61 l með bláu á stuttan hringprjón no 4. Tengið saman í hring og prjónið garða eins og á bol. Prjónið 2 umferðir sléttar. Í fyrri umferðinni er sett prjónamerki utanum 31. lykkjuna sem er miðjulykkjan í mynsturprjóninu. Næsta umferð er fyrsta umferðin af fjórum sem prjónaðar eru með bláu. Prjónið 23 sléttar, prjónið mynsturprjón og aftur 23 sléttar. Í 4. og 11. umferð er aukið út um eina lykkju hvorum megin við upphafslykkjuna. Þá verða á prjóninum 65 lykkjur. Síðasta umferðin er gerð í sama lit og sú síðasta á bol og 8 lykkjur settar á hjálparnælur á miðri undirermi. Prjónið ermina upp á bolprjóninn. Prjónið áfram þar til 4 l eru eftir að prjónamerkinu í hinni hliðinni og setjið næstu 8 l á hjálparprjón. Prjónið aðra ermi eins, prjónið hana upp á bolprjóninn og klárið umferðina.

Berustykki
Nú eiga að vera 300 lykkjur á prjóninum. Prjónið eina umferð og setjið prjónamerki þar sem ermar og bolur mætast, 4 stykki. Lykkjan bolmegin við merkið er alltaf prjónuð brugðin. Það eiga að vera 13 sl l á bolstykki milli br lykkjunnar við ermarnar og að br lykkjunni þar sem munsturprjónið byrjar og 21 sl l þaðan sem munsturprjón á ermi endar og að br lykkjunni við ermarnar. Prjónið 2 umf. Í næstu umferð er gerð laskaúrtaka báðum megin við brugnu l. Fyrst úv þegar 2 l eru eftir að brugnu lykkjunni. Prjónið brugnu lykkjuna og síðan úh. Prjónið 2 umf. Endurtakið úrtökuna. Prj 1 umferð. Takið úr bara ermamegin í hverri umferð 8 sinnum. Þá eiga sléttu lykkjurnar hvorum megin við br l við ermarnar að vera 11. Prjónið 1 umf og gerið nú úrtöku báðum megin eins og í byrjun nema í annarri hverri umferð 10 sinnum. Þá eiga að vera á prjóninum 172 l. Skiptið yfir á styttri hringprjón þegar hentar. Nú er hætt að prjóna munsturprjónið og haldið áfram með sl prjón og bláa litinn. Í fyrstu umferðinni er fækkað um 2 l með því að prjóna saman 2 l á miðri ermi hvorum megin. Eftir það er fækkað jafnt um 10 l í annarri hverri umferð. Fyrst með því að prjóna saman 16. og 17. l út umferðina, síðan 15. og 16. l  osfrv alls 6 sinnum. Þá eru á prjóninum 110 l. Prj eina umferð og síðan garðaprjón, 1 umf br, 1 umf sl, 1 umf br, 1 umf slétt. Fellið laust af. Lykkið saman undir handvegi.

Gangið frá endum. Skolið í mildu sápuvatni og leggið til þerris.

Hönnun:
Alda Sigurðardóttir

 

Nýjar fréttir