-1.6 C
Selfoss
Home Fréttir Fagrir garðar í Hveragerði

Fagrir garðar í Hveragerði

0
Fagrir garðar í Hveragerði

Hvergerðingar hafa valið þrjá fegursta garðana á þessu sumri og eru það þau Brynja Hilmarsdóttir og Eyjólfur Kolbeins í Réttarheiði 24, Ingibjörg Sigmundsdóttir og Hreinn Kristófersson í Heiðmörk 31, Sigríður Elísabet Sigmundsdóttir og Pétur Ingi Fransson í  Heiðmörk 53, sem fengu viðurkenningarskjöld fyrir fegursta garðinn 2017.

Brynja og Eyjólfur segja að aðalatriðið sé að hafa gaman í garðinum. Mynd: Helena.

Brynja og Eyjólfur segja engin einstök leyndarmál liggi að baki þeirra garði. „Þetta er auðvitað vinna en það er bara að hafa gaman að þessu, það er svo góð tilfinning að snyrta og laga. Við erum ekkert að spá í latnesku heitin á plöntum eða neitt svoleiðis. Þegar við förum í plöntuleiðangur veljum við bara það sem okkur finnst fallegt,“ segir Brynja og hlær.

Ingibjörg og Hreinn við Sítrónutréð og Brodda Hlyninn. Mynd: Helena.

Ingibjörg er flestum kunn úr Garðyrkjustöð Ingibjargar, en Hreinn og hún eru með margar spennandi plöntur og gróðurhús í garðinum sínum. Þar rækta þau margar framandi plöntur eins og Sítrónu- og Mandarínutré sem eru tekin út úr gróðurhúsinu á vorin. Í því eru margar suðrænar plöntur eins og ávaxta-, fíkju- og ferskjutré, ásamt kryddjurtum. Það sem er í uppáhaldi í garðinum er stór Dreka Lilja og rauður Brodda Hlynur, enda fallegar plöntur.

Sigríður Elísabet og Pétur Ingi leggja áherslu á útsýni og að finna gömlum munum nýtt hlutverk. Mynd: Helena

Sigríður og Pétur eru með stóra lóð og mikið rými, enda finnst þeim útsýnið skipta öllu máli. „Þegar við fluttum í húsið byrjuðum við á að fella stór tré í garðinum, þau skyggðu á smágróður. Við viljum hafa opin svæði og leyfa öðrum að njóta líka,“ segir Sigrún, en Pétur bætir við, að hún sjái mest um gróðurinn. En það er ekki bara gróður í garðinum, gamli rómantískir hlutir þjóna nýju hlutverki. „Ég er svo mikið fyrir að endurnýta og finna hlutum nýtt gildi, svoleiðis svalar maður sköpunarþörfinni.“ segir Sigrún sem ásamt Pétri, situr á bekknum sem þau gerðu úr Elri.

-hs.