Frjálsíþróttaskóli UMFÍ var haldinn á Selfossi dagana 11.–15. júní í frábæru veðri. Uppselt var í skólann löngu áður en hann hófst en alls kláruðu 62 frískir krakkar sem skólann. Skólinn er haldin út um allt land og var þetta níunda starfsár skólans á HSK-svæðinu.
Frjálsíþróttaskólinn á Selfossi heppnaðist mjög vel og krakkarnir voru ánægðir með hann. Meirihlutinn af krökkunum hefur komið áður í skólann. Að þessu sinni voru krakkarnir á aldrinum 11 til 14 ára. Flest börnin komu frá HSK-svæðinu en einnig voru krakkar úr Hafnafirði, Vík og frá Blöndósi.
Markmið skólans er að kynna og breiða út frjálsíþróttir á Íslandi. Dagskrá skólans var mjög fjölbreytt þar sem til að mynda voru kvöldvökur, bíóferð, fræðsla um næringu, viðtal við afreksíþróttamanninn og þjálfarann Véstein Hafsteinsson. Ásamt því var fjölbreytt hreyfing allt frá hefbundnum frjálsíþróttaæfingum, til sundsprells og ratleiks. Tólf frábærir þjálfarar og aðstoðarmenn hjálpuðu til í skólanum enda að mörgu að huga með stóran hóp. Í ár fengum við landsliðmennina Ara Braga, Íslandsmethafa í 100m hlaupi, og Guðna Val, kringlukastara og Ólympíufara, til að þjálfa í skólanum. Krakkarnir voru hæstánægðir með að fá að læra af þessum stjörnum.
Skólinn fór fram við frábærar aðstæður þar sem stutt er í alla aðstöðu, til að mynda gistiaðstöðuna í Vallaskóla, frjálsíþróttavöllinn og sundlaugina. Viljum við þakka Sveitafélaginu Árborg og Umf. Selfoss fyrir velvild í garð skólans.
Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum.
Frjálsíþróttaskólanum lauk með velheppnuðu frjálsíþróttamóti á fimmtudeginum þar sem nokkrir persónulegir sigrar unnust. Eftir grillveislu fengu krakkarnir viðurkenningaskjöl fyrir þátttöku í skólanum og kvöddust sátt og sæl eftir skemmtilega viku.
Skólinn vill þakka öllum þeim fjölda fyrirtækja sem lögðu þeim lið, sá stuðningur er ómetanlegur, en þau voru: MS, Nettó, Sölufélag garðyrkjubænda, Kjúklingabúið Vor, Hafnarnes Ver, Almarsbakarí, Guðnabakarí, Myllan, Heilsa, Kjötvinnslan Krás, Bónus, Selfossbíó, Kjörís, Landbankinn, KFC, Tiger og Kökugerð HP.
Takk fyrir okkur
Ágústa og Fjóla Signý, umsjónarmenn Frjálsíþróttaskólans á HSK-svæðinu.