-8.2 C
Selfoss

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka

Vinsælast

Á Jónsmessudag á morgun verður Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka haldin í nítjánda sinn. Dagskráin er fjölbreytt að vanda og þar eiga ungir og aldnir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Af dagskráratriðum má nefna að Skógræktarfélag Eyrarbakka tekur á móti gestum og býður upp á hressingu í skógræktinni í Hallskoti að morgni klukkan 10 verður boðið í frúarkaffisopa í Húsinu, þar sem Auðbjörg Guðmundsdóttir, fyrrum húsfreyja í Húsinu, tekur á móti gestum í kjólum eða kjólfötum í stássstofunni. Í Húsinu stendur nú yfir sumarsýning Byggðasafns Árnesinga – Kjólar.
Þá verður ýmislegt í boði fyrir yngri kynslóðina á túninu við Sjóminjasafnið og í hádeginu bjóða hjónin í Garðshorni, Elínbjörg og Vigfús, heim til sín í Jónsmessusúpu og rabarbaragraut.
Um miðjan dag taka á móti gestum þau Guðlaug Einarsdóttir og Jón Matthíasson á Túngötu 41 og Esther Helga Guðmundsdóttir í Einarshöfn 4.
Síðdegis mun Ásta Villa Guðmundsdóttir fremja gjörning á Eyrarbakkbryggju, sem hún nefnir Marþara, og Valgeir Guðjónsson skemmtir ungum og öldnum með fuglasöng og öðru kvaki í Eyrarbakkakirkju.
Einn vinsælasti dagskrárliðurinn undanfarin ár er fjöldasöngur í Húsinu sem Heimir Guðmundsson tónlistarkennari stjórnar af sinni alkunnu snilld. Söngurinn hefst klukkan 20.
Formlegri dagskrá lýkur svo klukkan 22 með Jónsmessubrennu í fjörunni vestan við Eyrarbakkaþorp. Þar mun Eiríkur Már Rúnarsson ávarpa gesti og hið frábæra Bakkaband heldir uppi fjörinu fram eftir kvöldi.
Verslanir og veitingastaðir eru opnir allan Jónsmessudaginn. Fjölbreytt gisting er í boði á Eyrarbakka og gott tjaldsvæði er vestan við þorpið.
Nánari dagskrá er að finna á www.eyrarbakki.is.

Nýjar fréttir