Naflahlaupið verður haldið á Hvolsvelli á morgun laugardaginn 24. júní. Hlaupið hefst kl. 10:00 þegar ræst verður í 21 km hlaup.
Naflahlaupið var fyrst haldið sumarið 2010. Nafnið er vísun til þess að um nafla alheimsins sé að ræða en það ár beindust allra augu að Rangárþingi eystra vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Naflahlaupið var viðleitni einstaklinga til að sýna fram á að þrátt fyrir allt væri öllu óhætt á þessu svæði, í Naflanum væri hreint og tært loft og góðar aðstæður til útivistar.
Í 21 km hlaupinu sem hefst kl. 10:00 er lagt er af stað frá Leikskólanum Örk á Hvolsvelli, hlaupið upp hjá Sólheimum, Lynghaga, Hjarðartúni, Miðtúni og Akri, svo niður hjá Nýbýlavegi og þaðan götur þræddar. Haldið áfram inn Fljótshlíðarveginn alla leið að Hótel Fljótshlíð, Smáratúni. Í 13 km hlaupinu sem hefst kl. 10:30 er hlaupið frá Leikskólanum Örk á Hvolsvelli að Hótel Fljótshlíð, Smáratúni. Í 5,3 km hlaupinu sem hefst kl. 11:00 er hlaupið frá skógræktarstöðinni á Tumastöðum að Hótel Fljótshlíð, Smáratúni. Ung afrekskona í frjálsum íþróttum, Dóróthea Jóhannesdóttir, mun svo keppa við krakka í 800 metra hluup og hefst það kl. 11:30. Hlaupið er allan afleggjarann að Hótel Fljótshlíð, Smáratúni
Hægt er að skrá sig á Facebooksíðu Naflahlaupsins með því að skrá sig „attending“. Facebooksíða hlaupsins er Naflahlaupið 2017. Flottir vinningar eru í boði og hressing við endamarkið í Hótel Fljótshlíð. Eins og síðast er hægt að skora á hlaupara og heita á þá. Ágóðinn rennur í gott málefni.