-1.1 C
Selfoss

Margt í boði á Landsmóti UMFÍ 50+ í Hveragerði um helgina

Vinsælast

Landsmót UMFÍ 50+ er eitt af stærri verkefni hreyfingarinnar og nú er komið að okkur HSK-félögum að halda mótið í samstarfi við Hveragerðisbæ. Landsmótsnefndin hefur undirbúið mótið eins vel og kostur er og unnið gott verk. Ásamt bæjaryfirvöldum höldum við glæsilegt Landsmót UMFÍ 50+ um komandi helgi.

Mótið hefst í Hamarshöllinni á morgun föstudaginn 23. júní kl. 10 með keppni í boccia. Keppni í ringó hefst kl. 16. í íþróttahúsinu. Mótssetning verður svo í íþróttahúsinu um kvöldið kl. 20 þar sem m.a. verður keppt í línudansi. Bjóðum við alla Hvergerðinga og Sunnlendinga hjartanlega velkomna á setningarathöfnina. Á laugardeginum verður keppt í golfi, boccia, utanvegahlaupi, skák, bridds, strandblaki, sundi og frjálsum íþróttum, að ógleymdum pönnukökubakstri og jurtagreiningu. Á sunnudegi verður keppt í þríþraut, badminton, pútti, þrekþraut og fuglagreiningu. Lokagrein mótsins er stígvélakast í Lystigarðinum. Áformað er að slíta mótinu að því loknu um kl. 14.

Á þessu Landsmóti eins og öðrum er það ekki einungis íþróttakeppni sem allt byggist á. Að sjálfsögðu skipar keppnin stærstan sess en það er svo fjölmargt annað sem gerir Landsmótin að því sem þau eru. Skemmtileg samvera í góðum og léttum félagsskap er ekki lítils virði.

Samhliða keppni verður margt í boði fyrir gesti og gangandi. Á föstudagskvöldinu eftir mótssetningu verður opið hús hjá Félagi eldri borgara í Hveragerði og á Skyrgerðinni. Eftir átök föstudagsins verður á laugardags morgni boðið upp á jóga fyrir alla í Lystigarðinum kl. 8. Gönguferð með leiðsögn verður í boði á laugardegi kl. 13 sem og opnir tímar í línudansi í íþróttahúsinu kl. 13–17. Um kvöldið verður sameiginlegur kvöldverður í Hótel Örk þar sem verður matur, skemmtun og dans.

Við hefjum sunnudaginn síðan með sundleikfimi kl. 8:30. Utanvegahlaup, opið öllum 18 ára og eldri, fer fram á laugardeginum kl. 9. Þannig verður margt umleikis yfir helgina sjálfa sem gefur bæði keppendum og gestum færi á að njóta margra spennandi en ólíkra viðburða á skömmum tíma.

Eins og sjá má á www.umfi.is og  www.hveragerdi.is er dagskrá mótsins afar fjölbreytt og allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, sama á hvaða aldri þeir eru. Sagt hefur verið að allir verða ungir á því að mæta á Landsmót og ég er viss um að svo verður um þá sem mæta í Hveragerði um helgina.

Við hvetjum heimamenn og gesti til þess að fjölmenna og fylgjast með skemmtilegri keppni í fallegu umhverfi sem og að mæta á þá viðburði sem boðið er upp á landsmótshelgina og upplifa einstaka stemmningu Landsmótanna.

Nánari upplýsingar um mótið má lesa á heimasíðu UMFÍ, www.umfi.is og á www.hveragerdi.is.

Guðríður Aadnegard, formaður HSK.

Nýjar fréttir