-1.1 C
Selfoss

Leitað að gömlum fallbyssum í fjörunni við Þorlákshöfn

Vinsælast

Síðastliðið sumar voru gerðar mælingar austur af Hafnarskeiðinu í nágrenni við Þorlákshöfn í því skini að finna gamlar fallbyssur af herskipinu Gautaborg sem fórst þar haustið 1718. Skipið fylgdi á þeim tíma dönskum kaupskipum til Íslands. Var svæðið austast á Hafnarskeiðinu mælt en það er jafnframt hættulegasta mælingasvæðið. Ekkert fannst við grunnsvæðið og skerin við ósinn.

„Nú er stefnt að leit við fjöruna þar sem örnefnið Miðalda er við landamæri Sveitarfélagsins Ölfuss. Þar heitir fjaran Hafnarskeið en heitir Hraunskeið þaðan og að ósnum. Nú er stefnt að leit við miðsvæðið við 10 metra dýptarlínuna,“ segir Guðbrandur Jónsson sem er í forsvari fyrir verkefnið Gautaborg, flakið í fjörunni.

Halldór Baldursson læknir er besta heimildin, en hann skrifaði grein í bókina, Sjóferðasaga Noregs, um herskiðið Gautaborg og strandið. Þar segir:

„Herskipið Gautaborg var smíðað í Svíþjóð en tekið herfangi árin á undan 1718 og var um 900 tonn. Í áhöfninni við brottför voru um 190 menn. Allir yfirmenn voru danskir en aðrir í áhöfn voru Norðmenn. Einn maður dó stuttu eftir brottför frá Bessastöðum. Átta menn dóu í fjörunni við flekann sem þar brotnaði í spón en um 181 manni var bjargað af bændum á svæðinu. Allir sem lifðu gistu bændabýli á Suðurlandi veturinn 1718 til 19. Þennan vetur rak mikið timbur á fjöruna frá skipinu en fallbyssurnar sukku í sjóinn og eru í allt 42. Þær flokkast þannig að sex voru 4 punda, átján voru 6 punda en átján voru 12 punda. Hver 12 punda fallbyssa vegur um 1.500 kíló. Ballast skipsins var grjót, um 80 tonn, og ætti ballastin og fallbyssurnar að vera í einni hrúgu við 10 metra dýptarlínuna. Einnig ættum við að finna akkerisfesturnar tvær þarna við strandstaðinn“.

Aðdragandinn að strandinu var þessi úr dagbók skipstjórans:

  1. nóvember, köstuðum akkerum við Þorlákshöfn á um 25 föðmum, (47 metrar). Akkerin grípa ekki.
  2. nóvember, köstuðum fallbyssum af dekki á 16 faðma dýpi og hjuggum möstrin af.
  3. nóvember, akkerin grípa í botni á 10 föðmum.
  4. nóvember, flekinn ferst á 10 föðmum (19 metrar) dýpið.

„Eins og sést af þessum upplýsingum frá skipstjóranum þá er all nokkur aðdragandi að strandinu en uppgefin vindátt var SSV. Einnig kemur fram í grein Halldórs að mikill leki hafi verið inn í skipið við brottför frá Bessastöðum og þetta mál allt því nokkuð dularfullt,“ segir Guðbrandur.

Söfnun til björgunar byssunum
Sett hefur verið af stað söfnun til björgunar byssum og öðrum munum í fjörunni við Þorlákshöfn til varðveislu á sjóminjasafninu í Þorlákshöfn. Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta haft samband við Guðbrand Jónason í síma 895 3311 eða sent tölvupóst á gudbrandur@drangey.is.

Köfunarþjónustun og Jarðfræðistofa Kjartans Thors
Köfunarþjónustun og Jarðfræðistofa Kjartans Thors koma að björguninni m.a. með því að leggja til búnaðinn sem notaður verður við leitina. Búnaðurinn er mjög dýr, sérstaklega fjölgeislamælirinn en hann kortleggur sjávarbotninn nákvæmlega og hentar því vel í þessa leit. Nýverið tók Jarðfræðistofan í gagnið nýjan og öflugan mælingabát sem er tvíbitna sem auðvelt er að flytja á milli staða og auðveldar alla vinnu við dýptarmælingar. Forsvarsmaður mælinga Jarðfræðistofunnar er Jónas Hlíðar Vilhelmsson landfræðingur. Hann er hefur yfir að búa áralangri reynslu á sviði land og dýptarmælinga.

Nýjar fréttir