1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ég datt svo rækilega inn í annan heim við lestur að mamma fór með til læknis

Ég datt svo rækilega inn í annan heim við lestur að mamma fór með til læknis

0
Ég datt svo rækilega inn í annan heim við lestur að mamma fór með til læknis
Inga Jónsdóttir.

Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga í Hveragerði er lestrarhestur Dagskrárinnar að þessu sinni. Hún er fædd á Selfossi 1953, alin upp í Hveragerði en hefur síðan búið víða við nám og störf, á Höfn í Hornafiði, Seyðisfirði, Reykjavík, Bandaríkjunum, Danmörku og Þýskalandi. Inga er stúdent frá MT, nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá Listaakademíunni í München Þýskalandi.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Ég var að ljúka við fjórðu og síðustu bókina af Napólí sögum Elenu Ferrante, Sagan af barninu sem hvarf; fullorðinsár – gamalsaldur. Ég hreifst mest af fyrstu sögunni í þessum bókaflokki, Framúrskarandi vinkona, einkum vegna þess að hún var svo myndræn og frásögnin svo lifandi og litríkar persónur kynntar. Bókaflokkurinn hefst á sjötta áratug síðustu aldar og það er gaman að fylgjast með þeim samfélagslegu breytingum sem persónurnar ganga í gegnum og sumt á sér samsvörun hér á landi. Núna er ég svo komin í minn samtíma og umhverfi og er að lesa aftur Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Það sem ég les mér til ánægju og er ekki tengt vinnu hef ég ekki tíma fyrir nema á kvöldin. Ég les alltaf áður en ég fer að sofa og er yfirleitt með nokkrar bækur á náttborðinu. Ég tek alltaf með mér bók eða bækur þegar ég fer í frí og í flugi og á flugvöllum er ég alltaf með bók við höndina.

Hefur lestur einhverrar bókar haft djúp áhrif á þig?
Já margar bækur hafa haft áhrif á mig. Ég man t.d. vel eftir tilfinningunni þegar ég las Hús andanna eftir Isabellu Allende og síðan fleiri sögur eftir hana. Sögur frá framandi menningarsvæðum hafa haft áhrif en líka verk Halldórs Kiljan Laxness, Íslandsklukkan og Sjálfstætt fólk.

Hvernig lestraruppeldi fékkst þú?
Frá því ég man eftir mér hef ég verið að lesa bækur og var hvött til þess, fjölskyldan gaf mér gjarnan bækur í jólagjafir og eins nýtti ég mér bókasafnið mikið. Ég datt inn í annan heim við lestur og útilokaði allt í kringum mig – svo rækilega að mamma fór með mig til læknis því hún hélt að ég væri að missa heyrn.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Ég man ekki eftir einni uppáhaldsbók úr minni æsku en bækur Enid Blyton voru í miklu uppáhaldi og þar er af nógu að taka, Ævintýra bækurnar, Fimm bækurnar og Dularfullu bækurnar sem ég man best eftir. Pollýanna er líka eftirminnileg, Börnin í Ólátagarði og fleiri bækur eftir Astrid Lindgren og ég man líka eftirvæntinguna hvort ekki væri bók um Hildu eftir Mörthu Sandwall-Bergstrøm í jólapakka frá ömmu Ingu.

Hvers konar bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ég veit það ekki en það hefur hvarflað að mér að skrifa um myndlist og tengja hana einhverju óvæntu.

Hvernig myndir þú lýsa bókarlausum heimi?
Ég get það ekki því ég held að heimurinn verði aldrei bókarlaus á meðan til eru hugsandi menn (og ekki gleyma því að menn eru bæði konur og karlar) og þá skilgreini ég bók ekki endilega sem hlut í hendi heldur sem skapandi frásögn hvort heldur munnleg, rafræn eða prentuð.