-1.1 C
Selfoss

Um 4.000 skátar sækja Ísland heim

Vinsælast

Einn af stærstu alþjóðlegu viðburðum á Íslandi í sumar verður alþjóðlegt skátamót, World Scout Moot, sem haldið verður í lok júlí. Alls munu um 4.000 skátar á aldrinum 18–25 ára frá 106 löndum taka þátt í mótinu auk 1.100 sjálfboðaliða. Mótið fer fram dagana 25. júlí til 2. ágúst. Fyrri hluti mótsins fer fram á ellefu stöðum á landinu. Seinni hlutinn fer fram á Úlfljótsvatni, þar sem umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir til þess að gera það mögulegt að taka á móti mikla fjölda.

„Við erum að undirbúa stærsta skátamót heims, þar sem ungt fólk með ólík trúarbrögð og venjur þarf að vinna saman að því sameiginlega markmiði að gera heiminn betri. Í ljósi atburða undanfarinna mánuða er það ögrun. Skátahreyfingin á Íslandi er að leggja sig alla fram um að gera þennan atburð ógleymanlegan og sanna að við viljum breyta heiminum til hins betra“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta.

Ísland sóttist eftir því að halda mótið og var sú ósk samþykkt á heimsþingi skáta í Brasilíu árið 2011. Íslenska ríkið hefur veitt stuðning við verkefnið að upphæð 94 milljónir og þar með er talin nauðsynleg uppbygging á Úlfjótsvatni. Þessi stuðningur hefur gert það mögulegt að stækka mótið frá því að vera 2.000 manna mót í Kanada árið 2013 í það að vera yfir 5.000 manna mót á Íslandi í sumar. Fjölmörg bæjarfélög hafa einnig lagt fram mikilvægan stuðning til þessa verkefnis en fyrri hluti mótsins fer fram á eftirtöldum stöðum: Reykjavík, Akureyri, Akranesi, Selfossi, Hveragerði, Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri, Skaftafelli, Þingvöllum, Vestmannaeyjum og Hornafirði. Áætlað er að ungu skátarnir leggi fram um 20 þúsund sjálfboðaliðavinnustundir á þessum stöðum sem endurgjald fyrir stuðninginn. Þetta eru verkefni eins og stígagerð, ruslahreinsun, skemmtidagskrá í bæjunum og fleira.

Hrönn Pétursdóttir er mótsstjóri World Scout Moot. Hún segir að góð þátttaka íslenskra skáta og þátttaka eldri sjálfboðaliða við hin ýmsu störf geri þetta stóra alþjóðlega mót að veruleika. Alls munu milli 1.100 og 1.200 sjálfboðaliðar, bæði innlendir og erlendir, tryggja framkvæmd mótsins. Hún segir að sterk staða krónunnar hafi gert allar áætlanir erfiðar en Skátahreyfingin hafi haft vaðið fyrir neðan sig þannig að framkvæmdahópurinn vonist til þess að verkefnið endi réttum megin við núllið. Hún segir að framkvæmdir á Úlfljótsvatni standi nú yfir og þar sé verið m.a. að stækka tjaldsvæði og byggja upp nauðsynlega innviði m.a. snyrtingar en hún undirstrikar að sjón sé sögu ríkari.

 

Nýjar fréttir