1.1 C
Selfoss

Sköpun sjálfsins í Listasafninu í Hveragerði

Vinsælast

Föstudaginn 23. júní næstkomandi kl. 18 verður sýningin, Sköpun sjálfsins – expressjónismi í íslenskri myndlist, opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Við það tilefni munu Greta Guðnadóttir og Guðmundur Kristinsson flytja tónlist.

Á sýningunni verða verk eftir frumkvöðla íslenskrar nútímalistar sem urðu fyrir áhrifum frá verkum þýskra og franskra expressjónista á fyrstu áratugum 20 aldarinnar. Verkin spanna þrjátíu viðburðarík ár þar sem saga íslenskrar myndlistar fléttast saman við menningarlega og pólitíska sjálfstæðisbaráttu millistríðsáranna sem lýkur þegar Ísland fær sjálfstæði árið 1944. Í upphafi tímabilsins voru flestir frumkvöðlar íslenskrar nútímalistar búsettir í Kaupmannahöfn, en á þriðja áratugnum eru þeir fluttir aftur til Íslands, þar sem ný kynslóð listamanna var að vaxa úr grasi. Íslensku listamennirnir urðu fyrir áhrifum frá frumkvöðlum expressjónismans, stefnu frjálsrar tjáningar, sem kollvarpaði eldri gildum og skapaði ný. Verkin á sýningunni sýna bæði hvernig áhrif expressjónistanna birtast í verkum íslensku listamannanna, en einnig hvernig þeir vinna úr þessum áhrifum og gera þau að sínum.

Sýningarstjóri er Margrét Elísabet Ólafsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri, sem undanfarið hefur unnið að rannsóknum á íslenskri nútímalist og uppruna hennar í expressjónisma. Á sýningunni má sjá verk eftir Finn Jónsson, Gunnlaug Scheving, Jóhann Briem, Jóhannes S. Kjarval, Jón Engilberts, Jón Stefánsson, Mugg og Snorra Arinbjarnar. Flest verkanna eru fengin að láni frá Listasafni Íslands, en verk frá einkaaðilum og úr safneign Listasafns Árnesinga eru einnig á sýningunni.

Sýningin Sköpun sjálfsins mun standa til og með 10. september. Safnið er opið alla daga kl. 12-18 Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýningarinnar.

Nýjar fréttir