1.1 C
Selfoss

Skilti við Krókstjörn við Þykkvabæ afhjúpuð

Vinsælast

Síðastliðinn laugardag voru afhjúpuð skilti við Kristjónstjörn við Þykkvabæ. Skiltin sýna fjallahringinn með örnefnum og nefnist verkefnið „1000 ára sveitaþorp – fjallasýn“. Verkefnið er afsprengi Kartöflusúpunnar sem var listahátíð sem haldin var í nokkur skipti í Þykkvabæ. Forsprakkar verkefnisins eru Bjarnveig Jónsdóttir, Sigrún Björk Leifsdóttir, Brynja Rúnarsdóttir og Halldóra Hafsteinsdóttir.

Áður en til þessa verkefnis kom höfðu þær áður unnið að því að setja upp myndir af eldri bæjum við heimreiðar að bæjum í Djúpárhreppi sem árið 2002 sameinaðist öðrum sveitarfélögum í Rangárþing ytra. Verkefnið hlaut styrk frá Menningarráði Suðurlands árið 2010 og einnig frá Rangárþingi ytra, Vegagerðinni og Búnaðarfélagi Djúpárhrepps. Verkefninu var komið af stað í samvinnu við Dorotheu Lubecki sem þá starfaði fyrir menningarráðið og skipti sá stuðningur verkefnið gríðarlega miklu máli. Fljótlega eftir að verkefnið hlaut styrk varð gos í Eyjafjallajökli og þá var ekki hlaupið að því að ná fjallasýn. Það var svo árið 2015 að Jóna Sigþórsdóttir ljósmyndari tók myndirnar og í framhaldi voru örnefnin merkt inn á þær. Leitað var til staðkunnugra með það. Skiltin voru svo prentuð 2016 og loks afhjúpuð sl. laugardag.

Að drífa svona verkefni áfram og láta það verða að veruleika er ekki einfalt og margar hendur sem koma að. Mikið afrek er að ná að ljúka svona verkefni. Er það frábært fyrir sveitarfélagið að búa að svona mannauði – sem með frumkvæði sínu kemur svona verkefnum í framkvæmd. Tilvalið er að fara í bíltúr að Kristjónstjörn og kynna sér örnefni fjallahringsins.

 

Nýjar fréttir