Bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar munu á haustmánuðum flytja úr núverandi húsnæði í verslunarmiðstöðinni í Sunnumörk í miðbæinn eða að Breiðumörk 20 (Arion banka húsið) en það húsnæði er einnig í eigu Reita. Samningar milli aðila um flutninginn voru undirritaðir á dögunum.
Á næstu vikum verður hafist handa við endurbætur á húsnæðinu og innréttingu þess svo það geti með góðu móti hýst starfsemi bæjarskrifstofunnar. Eru allar endurbætur og innréttingar greiddar af Reitum ehf. en húsnæðið verður allt aðlagað að þörfum bæjarins.
Núverandi leigusamningur um húsnæði bæjarskrifstofunnar er óuppsegjanlegur og gildir í 25 ár. Þeim samningi hefur reynst vonlaust að breyta á nokkurn hátt þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Með nýjum samningi er bæjarskrifstofunum tryggt húsnæði á besta stað í miðbæ Hveragerðis og án þess að fyrir það sé árlega greitt umfram það sem þegar hefur verið samið um. Nýr leigusamningur er uppsegjanlegur eftir 15 ár og því gildir hann tveimur árum lengur en sá fyrri. Að loknum leigutímanum hefur Hveragerðisbær forleigurétt og forkaupsrétt á meðan leigusamningur er í gildi.
Bæjarfulltrúar allra flokka voru sammála því að ganga til þessara samninga en með þeim vill bæjarstjórn leitast við að efla miðbæjarkjarna Hveragerðis sem óneitanlega breyttist töluvert með tilkomu verslunarmiðstöðvarinnar við Sunnumörk. Verslunarmiðstöðin muni einnig njóta góðs af þessari breytingu þar sem meira rými mun skapast fyrir núverandi rekstraraðila og ný spennandi verslunarrými verða til í Sunnumörk.
Það er full ástæða til að þakka forsvarsmönnum Reita ehf. fyrir gott samstarf við þetta verkefni og góðan hug þeirra til Hveragerðisbæjar en án þess hefði þetta verkefni aldrei getað orðið að veruleika.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.