-6 C
Selfoss

Hugmyndafræðin er í grunninn íslenskt handverk og íslensk hönnun

Vinsælast

Rammagerðin opnaði um síðustu helgi verslun í eldfjallasetrinu á Hvolsvelli. Er þetta stærsta verslun Rammagerðarinnar eins og sakir standa, um 330 fermetrar. Verslunin á Hvolsvelli er hluti af Rammagerðarverslanakeðju, en fyrirtækið er með verslanir á Akureyri, í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli.

„Hugmyndafræðin á bak við verslunina er í grunninn íslenskt handverk og íslensk hönnun. Við kjósum að staðsetja okkur þar á markaði að við séum að taka á móti ferðamönnum og bjóða þeim af mikilli gestrisni til okkar til þess að sjá hvað fólkið í landinu er að vinna í handverki,“ segir Lovísa Óladóttir framkvæmdastjóri hjá Rammagerðinni.

„Ég hef svolítið unnið með þessa hugmynd að þetta sé einshvers konar „beint frá býli“. Við erum með gríðarlega mikið af vörum sem við fáum í hverri viku. Við látum prjóna fyrir okkur vettlinga, húfur, sokka, plögg og peysur í gömlum munstrum. Svo er gríðarlega mikið af öðru handverki frá minni birgjum eða sniði og handverksfólki sem að vinnur heiman frá sér, t.d. bílskúrsfólk. Svo eru líka stærri aðilar á milli.“

„Það er svo sem enginn heilagur andi yfir starfsemi okkar. Það er alveg vara inn á milli sem kemur lengra að en hún er alltaf með einhverja íslenska hugmynd á bak við sig og það er einhver íslenskur aðili sem hefur þróað hana þó að efnið sé keypt erlendis frá. Eins og allir vita er ekki hægt að fá öll efni hér. Áherslan er auðvitað ullina og ullarafurðir. Svo eru líka minjagripir af ýmsum toga. Við erum með ljósmyndir frá svæðum og erum að reyna að umfaðma þetta fyrirkomulag sem er í kringum eldstöðvarnar og þetta svæði þar í kring. Við ætlum að vera með myndir af þeim og búa til minjagripi sem fólk getur gripið með sér til að eiga til minningar um dvölina hér á Suðurlandi og viðkomuna í eldfjallasetrinu.“

„Við ætlum að veita góða þjónustu. Í framtíðinni ætlum við svo sannarlega að huga að því að vinna meira með fólkinu í nærsveitinni. Vonandi náum við að vera með markaði á laugardögum eða eitthvað slíkt þar sem verður matur og slíkir hlutir sem fólk getur komið með, bakaðar pönnsur og eitthvað svoleiðis og gefa fólki að smakka þær vörur sem eru héðan. Við erum t.d. með súkkulaðigerðamann hér úr sveitinni sem gerir súkkulaði fyrir okkur og með okkur,“ segir Lovísa.

Verslun Rammagerðarinnar á Hvolsvelli verður opið alla daga ársins frá klukkan níu á morgnana til sjö á kvöldin. Að sögn Lovísu verður opnunartímann líka aðlagaður eftir því sem þörf er, þ.e. lengdur eða styttur eftir því sem við á.

Nýjar fréttir