Uppsprettan verður haldin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi um komandi helgi. Þetta er í annað sinn sem byggðarhátíð er haldin undir þessu nafni þar í sveit.
Á laugardagsmorgninum koma saman sprækir knapar með hesta sína og og etja kappi hver við annan á Brokk og skokk mótinu sem er orðinn árlegur viðburður í Skaftholtsréttum. Eftir það fagnar hver þjóðhátíðardeginum með sínum hætti, en á sunnudeginum verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Árnesi. Leikhópurinn Lotta mun mæta á staðinn kl. 11:00 og bera fram söguna um Ljóta andarungann af sinni einstöku snilld. Miðaverð á þessa tilteknu sýningu verður 1000 kr, en frítt er fyrir 3 ára og yngri. Í framhaldi af leiksýningunni verður nóg til afþreyingar fyrir börnin, hoppukastali, klifurveggur, hestar, geitur og uppsprettuþraut sem hægt er að njóta í góðum félagskap í fallegu umhverfi. Inni í félagsheimilinu verður markaðurinn „Bjástrað á bæjunum“ þar sem ýmiss varningur úr smiðju íbúa sveitarinnar og góðra gesta verður til sýnis og sölu. Einnig verður boðið upp á myndasýningu með gömlum myndum úr byggðarlaginu og á planinu fyrir utan verður fornbílasýning. Skákáhugamenn og -konur eru sérstaklega hvattir til að mæta með fjölskyldum sínum og grípa í tafl á skákmóti hátíðarinnar sem haldið verður kl. 13:00. Á meðan á þessu öllu stendur er boðið upp á veitingar við allra hæfi á hagstæðu verði. Lokaathöfn hátíðarinnar hefst kl. 14:30, en þar verða afhent verðlaun fyrir helstu afrek dagsins. Á facebook-síðu hátíðarinnar má nálgast nánari dagskrá, myndagátu hátíðarinnar og fleira skemmtiefni. Uppsprettan er öllum opin.