-6 C
Selfoss
Home Fréttir Verslun opnuð að nýju á Minni Borg

Verslun opnuð að nýju á Minni Borg

0
Verslun opnuð að nýju á Minni Borg
Páll Helgi Kjartansson í versluninni að Minni Borg. Ljósmynd: ÖG.

Föstudaginn 23. maí sl. var opnuð að nýju verslun á Minni Borg en henni var lokað síðastliðið haust. Nýi rekstraraðilinn er Páll Helgi Kjartansson frá Vaðnesi í Grímsnesi en hann er búsettur á Borg. Páll Helgi tók við 1. maí sl. eftir að hafa gert samning til 8 ára við Olís, eiganda húsnæðisins.

„Við fórum í smá endurbætur og opnuðum síðastliðinn föstudag 23. maí. Þetta hefur farið vel af stað og fólk hefur tekið þessu mjög vel og þá sérstaklega sumarbústaðafólkið. Við gerðum smá breytingar á húsnæðinu, stækkuðum um 12 fermetra inn af lagernum, tókum niður einn vegg þannig að nú er innangengt úr búðinni á klósettin. Það gerir okkur auðveldra að halda því hreinu og líta eftir því.“

Að Minni Borg er boðið pylsur, ís, kaffi og alls konar nammi. Einnig er þar hægt að fá hefðbundna dagvöru, grillkjöt, gas og fleira, ásamt ýmsu smádóti fyrir krakkana. Þá verður þar eitthvað af olíuvörum en bensíntankarnir eru sjálfsalar frá Olís.

„Við fáum brauð og ýmis konar bakkelsi frá Sindra bakara á Flúðum. Það kemur ferskt til okkar klukkan hálf tíu á morgnana. Viðskiptavinirnir hafa tekið því mjög vel. Ég hef varla við að fylla á hillurnar. Þetta er eitthvað sem ekki hefur verið hér áður. Svo er þetta alveg einstaklega gott bakarí á Flúðum,“ segir Páll Helgi.

Pál Helgi er með hugmyndir um að opna grill í húsnæði við hliðina á versluninni en segir að það verði líklega ekki fyrr en á næsta ári. Í sumar verður opnuð gisting í fjórum herbergjum á efri hæðinni.

Margir sveitungar í Grímsnesinu hafa notað verslunina á Minni Borg sem nokkurs konar „félagsmiðstöð“ eins og Páll Helgi orðar það. Hann segir að félagsmiðstöðin sé þannig séð búin að opna aftur. Sveitungarnir koma gjarnan seinni partinn og fá sér kaffi og spjalla.

Verslunin að Minni Borg er opin mánudaga til laugardaga frá klukkan níu á morgnana til klukkan níu á kvöldin og á sunnudögum frá tíu til átta.