-8 C
Selfoss

Forsetahjónin heimsækja Bláskógabyggð í dag

Vinsælast

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reed koma í
opinbera heimsókn til Bláskógabyggðar í dag föstudaginn 9. júní og stendur heimsóknin í einn dag. Þennan sama dag á sveitarfélagið 15 ára afmæli en það varð til við samruna þriggja sveitarfélaga á Suðurlandi. Öllum íbúum Bláskógabyggðar og fleiri gestum er boðið til móttöku í Aratungu í Reykholti síðdegis kl. 16:00.

Dagskrá heimsóknarinnar hefst við Heiðarbæ í Þingvallasveit að
morgni dags en svo verður haldið í þjóðgarðinn á Þingvöllum þar sem Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður og Vilhjálmur Árnason, formaður Þingvallanefndar, taka á móti gestum. Þá liggur leiðin að Laugarvatnshellum þar sem forseti skoðar aðstöðu sem þar er búið að koma upp; næst er haldið í Héraðsskólann á Laugarvatni þar sem gestir njóta leiðsagnar Halldórs Páls Halldórssonar skólameistara og því næst er komið við í Fontana lauginni.

Eftir hádegi heimsækja forsetahjónin bændur á Hjálmsstöðum, þau Ragnhildi Sævarsdóttur og Daníel Pálsson, og kynna sér kúabúskapinn þar. Í Heilsugæslunni í Laugarási taka forsetahjón þátt í dagskrá um heilbrigðismál og samfélag. Þar verður jafnframt staðfestur samningur Bláskógabyggðar og embættis landlæknis um Heilsueflandi samfélag.

Að þessu loknu halda gestirnir í Friðheima sem þekktir eru fyrir
tómatarækt og veitingasölu en þar geta ferðamenn einnig séð
hestasýningar. Að því loknu sækja forsetahjónin hátíðarsamkomu í
Aratungu í boði Bláskógabyggðar þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá, forseti flytur hátíðarávarp og færir sveitarfélaginu gjöf.

Dagskrá opinberrrar heimsóknar forsetahjónanna í Bláskógabyggð 9. júní
– 15 ára afmæli Bláskógabyggðar

1. Selbrúnir (rétt við afleggjara að Grafningsvegi), kl. 8:45
Sveitarstjórn, sveitarstjóri og makar taka á móti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og frú Elizu Reid á Selbrúnum, Þingvallasveit.

2. Þingvellir, kl. 9:00-9:30
Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður, Vilhjálmur Árnason, formaður Þingvallanefndar og Einar Á. Sæmundsen taka á móti forsetahjónunum við Hakið.

3. Laugarvatnshellar, kl. 9:50-10:10
Smári Stefánsson og Hallbera Gunnarsdóttir taka á móti gestum. Þau segja forsetahjónunum frá því þegar búið var í Laugarvatnshellum en þau hafa endurgert hellana eins og þeir voru þegar búið var í þeim.

4. Laugarvatn, kl. 10:30-11:30
Heimsókn í Héraðsskólann á Laugarvatni og þaðan verður farið í Fontana.

5. Hjálmsstaðir, kl. 13:00-13:20
Daníel Pálsson og Ragnhildur Sævarsdóttir bændur á Hjálmsstöðum taka á móti forsetahjónunum og sýna þeim nýtt fjós sem þau hafa byggt upp.

6. Heilsugæslan í Laugarási, kl. 13:50-14:50
Skrifað verður undir samning um heilsueflandi samfélag milli Bláskógabyggðar og Embættis landlæknis. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra mun mæta og ávarpa samkomuna ásamt forseta Íslands.

7. Friðheimar, kl. 15:00-15:30
Knútur Ármann og Helena Hermundardóttir taka á móti hópnum og segja frá sinni starfsemi og garðyrkju í sveitarfélaginu.

8. Aratunga, kl. 16:00-18:00
Móttaka í Aratungu fyrir íbúa og gesti sveitarfélagsins. Forsetinn mun flytja ávarp. Á dagskránni eru m.a. tónlistaratriði og landsfrægur skemmtikraftur.

Nýjar fréttir