-7.6 C
Selfoss

Ég les þegar mér dettur það í hug og oft les ég ekki

Vinsælast

Jón Özur Snorrason er Gaflari í móðurætt en föðuramma hans er fædd að Túni í Flóa. Hann er kvæntur Öldu Sigurðardóttur sem rekur Alvörubúðina og Hannyrðabúðina og þriggja barna faðir. Fluttist á Selfoss fyrir 20 árum til að kenna íslensku við FSu sem hann hefur nánast gert sleitulaust síðan utan tveggja ára sem hann kenndi við ML.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Ég er aðallega að lesa tvær bækur. Önnur er um uppeldi hunda og heitir Gerðu besta vininn betri. Þessi bók er skrifuð af innsæi og kærleik og ég læri heilmikið af henni. Við fengum okkur íslenskan hund fyrir tveimur árum sem heitir Kári Sölmundarson og vísar nafn hans með þráðbeinum hætti í góða bók. Hin heitir Skrýtnastur er maður sjálfur og er eftir Auði Jónsdóttur þar sem hún varpar ljósi á skáldferil afa síns Halldórs Laxness. Aukalega er ég svo að lesa aðrar tvær sem eru Maðurinn sem hataði börn eftir Þórarin Leifsson um Sylvek og áhugaverða ömmu hans sem bæði eru innflytjendur. Þetta er Reykjavíkursaga fyrir börn á öllum aldri sem vekur hlátur og hroll. Að síðustu er það Neon biblían eftir látinn bandarískan höfund John Kennedy Toole sem var misskilinn snillingur og skildi eftir sig tvær skáldsögur áður en hann tók sitt eigið líf. Þetta er prýðilegt hversdagsraunsæi en það sem mér finnst merkilegast er að höfundurinn skrifar hana aðeins sextán ára gamall.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Ég les líklega bara þegar mér dettur í hug og oft les ég ekki. Stundum les ég á kvöldin áður en ég fer að sofa og stundum ekki. Ég er hæglæs og smjatta á lýsingum í skáldsögum og ljóðum. Svo tek ég tarnir þegar ég þarf að ljúka bók. Lestur tengist starfi mínu sem kennari bókmennta og að því leyti er ég mjög lánsamur maður. Lestur nærir mig og ég fæ mjög mikið út úr því að greina texta. Hins vegar er ég er engan veginn nógu markviss lesari.

Hefur lestur einhverrar bókar haft djúp áhrif á þig?
Ég gæti nefnt nokkrar en til að vera stuttorður segi ég Gerpla eftir Halldór Laxness. Ég las hana á öðru ári í háskóla og var algerlega heillaður. Ég veit nákvæmlega hvar ég sat í kennslustofunni þegar hún kom til umfjöllunar. Mig langaði svo til að tjá mig en hafði ekki burði til þess þá. Gerpla er stutt saga í löngu máli. Hún fjallar öðrum þræði um skáld sem ætlar að ná fundi leiðtoga síns og mæra hann í kvæði. En þegar hann loksins stendur augliti til auglitis við þennan leiðtoga að loknum fimm hundruð blaðsíðum segist hann hafa gleymt kvæðinu.

Hvernig lestraruppeldi fékkst þú?
Sjálfsagt fékk ég ekkert sérstakt lestraruppeldi. Ég er einn af sex systkinum og miðjubarn. Heimilið var fullt af bókum en kannski voru fæstar í nógu mikilli nálægð við þroska minn. Ég horfði á þessar bækur, handlék þær og blaðaði í þeim. Eitthvað hlýt ég að hafa lesið. Pabbi var kennari og mamma heimavinnandi og þau höfðu í nógu að snúast til að halda heimilinu saman. Þó á ég afar hlýjar minningar um okkur öll liggjandi í hjónarúminu og pabbi að segja okkur söguna um Búkollu eða norska tröllasögu um Smjörhák.

Hver er uppáhalds barnabókin þín og hvers vegna?
Ef ég á að vera hreinskilin þá er hún engin. Barnabókum var ekki haldið að mér og þær voru varla til á mínu æskuheimili. Reyndar sótti ég í bókasafn Hafnarfjarðar og las Fimm bækurnar, Dularfullu bækurnar, Frank og Jóa og Bob Moran. Ég man líka eftir að hafa lesið Dagfinn dýralækni. Þessar bækur heilluðu mig ekkert sérstaklega. Ég kynnist ekki verkum Astridar Lindgrens fyrr en ég fór sjálfur að lesa fyrir börnin mín.

Hvers konar bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ljóð og örsögur. Kannski leikrit en varla langar skáldsögur. Ég bý ekki yfir nógu miklum sjálfsaga til þess.

Er til heimur án bóka?
Ekki mennskur heimur. Heimur dýra og plantna er án bóka. Éta, sofa og fjölga sér, vafra um eða leita að vatni, safna fæðu og verjast öðrum dýrum. Þannig var heimur mannsins í árdaga. Svo fóru menn að skoða og rannsaka og pæla og stúdera og velta vöngum og smátt og smátt urðu bækur til. Bókalaus heimur er ómennskur heimur og í þannig heimi held ég að fæstir myndu vilja búa.

Nýjar fréttir