Systkinin, þau Kristín Hanna Guðmundsdóttir í 7. HST og Davíð Fannar Guðmundsson í 5. SMG í Vallaskóla á Selfossi, tóku þátt í Nýsköpunarkeppni grunnskólana (NKG) nýverið. Skemmst er frá því að segja að þau komust alla leið í úrslit.
Kristín Hanna og Davíð Fannar voru valin ásamt þremur öðrum teymum til að flytja stutta ræðu á lokahófi keppnarinnar sl. laugardag, 20. maí, þar sem þau kynntu hugmynd sína með miklum glæsibrag. Fyrir að komast í úrslitin fengu þau gjafabréf í Háskóla unga fólksins. Einnig unnu þau forritunarverðlaun NKG og hvatningaverðlaun Kóðans 1.1 og með þeim titilinn Forritarar framtíðarinnar. Verðlaunin voru aukahugbúnaður fyrir Microbit-forritunartölvu. Þeim þótti afskaplega gaman að taka þátt í vinnustofu NKG fimmtudag og föstudag og fengu hrós frá leiðbeinendum fyrir skemmtilega hugmynd og góða framkomu.
Sjá nánar heimasíðu NKG, hér.
Hugmyndin
Hugmynd þeirra systkina heitir Hitchhikers Guide to Iceland. Með smáforritinu geta puttalingar fengið far og bílstjórar gefið fólki far. Þetta nýtist einnig fyrir samnýtingu bíla hérlendis, sem myndi þá vonandi leiða til þess að bílum fækkaði á vegum landsins og þar með yrði mengun af þeirra völdum minni.
Ástæðan fyrir því þátttöku Kristínar Hönnu og Davíðs Fannars var einfaldlega sú að móðir þeirra, Dagný Dögg Sigurðardóttir, benti þeim á NKG í fyrra. Hún sagði þeim að það gæti verið skemmtilegt verkefni að taka þátt ef þau fengju góða hugmynd. Kristín Hanna sendi inn hugmynd í fyrra sem komst ekki áfram en fékk hugmyndina að HGI þegar fjölskyldan var að keyra frá Reykjavík og sá puttaling úti í rigningunni að reyna að húkka sér far. Kristín Hanna bað bróður sinn um að vinna þessa hugmynd með sér, sem að lokum var send í keppnina.