-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Fann samherja í öðru landi í gegnum lestur bókar

Fann samherja í öðru landi í gegnum lestur bókar

0
Fann samherja í öðru landi í gegnum lestur bókar
Guðmundur Pálsson.

Guðmundur Pálsson fiðlukennari á Selfossi til margra ára er lestrarhestur Dagskrárinnar. Hann er frá Litlu-Sandvík í Flóa, sonur hjónanna Páls Lýðssonar og Elínborgar Guðmundsdóttur. Hann er kvæntur Jóhönnu Ólafsdóttur og eiga þau börnin Þorbjörgu Elísu og Sigurberg Snæ. Stjúpsonur Guðmundar er Bergþór Óli Unnarsson.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er að lesa Skuggabox eftir Þórarin Eldjárn. Þórarinn er minn uppáhalds rithöfundur og er ég að lesa þessa bók í annað sinn. Hún er svona skopmyndalýsing á Íslendingum og ágætis samtímaheimild til dæmis um skemmtanalífsmenningu Íslendinga á árunum áður en bjórinn var leyfður. Þá voru í Reykjavík örfá risastór skemmtanahús sem fylltust af fólki á engri stundu um miðnætti og svo hurfu allir jafn skyndilega klukkan þrjú eftir miðnætti.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Góðar skáldsögur og æfisögur. Stundum líka bækur og tímarit um heimspekileg efni.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Lestraráhugi minn hefur dalað síðustu árin því miður og kenni ég því um að ég hef eins og svo margir þörf fyrir að hanga á vefmiðlum. Helst er að ég taki skorpu í að lesa einhverja bók á skömmum tíma og gríp þá oft í hana. Svo þegar henni er lokið byrja ég á þeirri næstu eftir vikur eða jafnvel mánuði.

Hefur lestur einhverrar bókar haft djúp áhrif á líf þitt?
Já það er bókin Nurtured by Love eftir japanska fiðlukennarann Sinichi Suzuki. Ég las hana þegar ég var tæplega 24 ára. Þá var ég í fiðlunámi í Reykjavík sem mér fannst ekkert ganga. Ég byrjaði fiðlunám mitt seint og var ekki eins góður og yngri nemendur sem voru að spila með mér í Sinfóníuhljómsveit æskunnar. Það fyllti mig ranghugmyndum um lélega hæfileika til námsins. Í þessari bók segir Suzuki frá lífshlaupi sínu en sjálfur byrjaði hann seint að læra á fiðlu. Hann fór tvítugur til Berlínar í fiðlunám á millistríðsárunum þar sem hann lenti í því eins og ég að bjástra við námið við hlið mun yngri nemenda sem spiluðu betur en hann. Það má því segja að ég hafi í gegnum lestur þessarar bókar fundið samherja í öðru landi á öðrum tíma sem veitti mér góðan stuðning.

Í bók sinni snýr Suzuki við þeirri skoðun að afburðahæfileikar séu arfgengir og reynir eins og hann getur að sanna að þegar einhver sýnir mikla hæfileika er það eingöngu vegna jákvæðni og hvatningar sem börn alast upp við, leiðsagnar reyndra kennara og tímans sem fer í að æfa sig. Tónlistargáfurnar koma ef barn elst upp þar sem mikið er spilað af góðri tónlist.

Eftir lesturinn tók ég mig verulega á í æfingum. Ég hafði þá hugmynd um sjálfan mig á þessum árum að ég hefði ekki erft almennilega tónlistargáfur móður minnar en hún er mjög músíkölsk og mikið um músík á hennar æskuheimili. Ég ákvað því að taka þessar gömlu arfgengishugmyndir mínar af vogarskálinni sem gerði allt auðveldara fyrir mig bæði í námi og svo í starfi mínu sem tónlistarkennara og bara lífinu almennt.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Helgi skoðar heiminn
eftir Njörð P. Njarðvík með myndskreytingum Halldórs Péturssonar. Skemmtileg og kímin saga með myndskreytingum sem ná manni ennþá.

Lest þú fyrir börnin þín?
Já á hverju kvöldi. Skemmtilegast finnst mér að lesa Árstíðirnar eftir Þórarin Eldjárn við myndskreytingar Sigrúnar Eldjárn. Börnunum finnst hún skemmtileg og ég skemmti mér líka yfir orðsnilld Þórarins.

Geta bækur komið á óvart?
Já. Bækur hafa komið mér á óvart með orðkynngi. Rithöfundi tekst þá að orða eitthvað sem ég þekki eða veit um en hefði ekki orðað svona vel. Góðir rithöfundar eru sílesandi og sískrifandi því æfingin skapar meistarann.