4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Hjólað óháð aldri

Hjólað óháð aldri

0
Hjólað óháð aldri
Nýja rafknúna farþegahjólið var prufukeyrt sl. föstudag.

Rafknúna farþegahjólið sem hjúkrunardeildirnar Fossheimar og Ljósheimar fengu nýlega afhent hefur fengið nafnið Gustur. Hjólið er hluti af alþjóðlegu verkefni Hjólað óháð aldri. Á HSU var haldin nafnasamkeppni og þangað komu inn fjöldi tillaga og varð Gustur fyrir vali dómnefndar. Það nafn vísar m.a. til þeirra lífsgæða að geta haft kost á því að fá vind í vanga, sem er einmitt slagorð verkefnisins.

Verkefnið, Hjólað óháð aldri, er samfélagsverkefni þar sem sjálfboðaliðum gefst kostur á að bjóða heimilismönnum Fossheima og Ljósheima í hjólatúr um bæinn.

Vel heppnað hjólaranámskeið var haldið á HSU, þar sem Sesselja Traustadóttir, verkefnastjóri Hjólað óháð aldri á Íslandi, kenndi sjálfboðaliðum að hjóla með farþega á Gusti. Heimilismenn vígðu svo hjólið og vakti það mikla lukku.

Sem samfélagsverkefni, býðst fyrirtækjum að verða þátttakendur með einhverjum hætti. Fyrirtæki hafa þegar tekið við sér, Jötunvélar útveguðu þrjá reiðhjólahjálma fyrir hjólara og farþega og Ísbúðin Huppa gefur þeim ís sem koma á hjólinu til þeirra. Stuðningsfyrirtæki Hjólað óháð aldri fá sérstakan límmiða í rúðuna hjá sér sem votta að fyrirtækið styðji þetta skemmtilega samfélagsverkefni.

Næsta hjólaranámskeið verður þriðjudagskvöldið 6. júní kl. 20 og mun Inga Sjöfn Sverrisdóttir sjúkraþjálfari og umsjónarmaður verkefnisins á HSU, kenna á hjólið. Hjólaranámskeiðið er forsenda þess að geta fengið að nota hjólið og fá Hjólarar barmmerki sem vottar að þeir hafi tekið námskeiðið.