4.5 C
Selfoss

Mönnum liggur mismikið á

Vinsælast

Baldur Róbertsson hefur frá 2008 rekið lítið flutningafyrirtæki á Selfossi, BR flutninga ehf., sem hefur gengið vel. „Baldur Robba“ eins og hann er jafnan kallaður var tekinn tali sl. sunnudag og meðal annars spurður um uppruna sinn.

„Ég er fæddur á Selfossi og bjó hér alveg fram undir tvítugt eða allt þar til maður fór að fara á vertíðir. Svo bjó erlendis í nokkuð mörg ár. En Selfoss er alltaf Selfoss, ræturnar eru hérna og því hefur maður alltaf endað hérna. Það er hvergi betra að búa. Ég flutti heim 1994 og er búinn að vera hérna meira og minna síðan. Konan mín heitir Jill Renea Róbertsson og við eigum tvo drengi, 5 ára og 7 ára. Svo á ég einn 25 ára son af fyrra hjónabandi sem býr í Reykjavík.

Hraðþjónusta – engir milliliðir

Þegar Baldur er spurður út í reksturinn svarar hann: „Ég er í flutningaþjónustu en hún gengur aðallega út á það að sækja vöru til kúnna og fara með hana til þess sem að pantaði hana. Einnig að dreifa vörum í Reykjavík frá Selfossi. Við förum tvær ferðir á dag hérna á milli og þetta er í rauninni hraðþjónusta. Mönnum liggur mismikið á. Þetta er í rauninni maður á mann. Það eru engir milliliðir, engar stöðvar þar sem vörurnar eru að lenda inn á. Þetta fer bara beint inn á bíl og síðan til þess sem fær vöruna.“

„Ég byrjaði í október 2008 í hrunmánuðinum fræga. Þá kom aðili í Reykjavík að máli við mig og bað mig að aðstoða sig við að opna útibú hérna á Selfossi fyrir flutningafyrirtæki í Reykjavík. Viku af október kom hrun og þar sem þessi aðili átti mikið af bílum og dóti og allt á erlendum lánum gafst hann hreinlega upp. Hann þorði ekki að halda áfram þar sem hann var með of mikið af skuldum og allt búið að margfaldast. Ég var búinn að lofa of mörgum Selfyssingum að flytja fyrir þá þannig að ég varð bara að halda áfram. Þannig að ég fór bara í þetta. Ég sé ekkert eftir því. Þetta er mjög skemmtileg vinna,“ segir Baldur.

„Ég er með tvo starfsmenn, Bjarka Vilhjálmsson og Jón Ívar Jóhannsson. Þannig að við erum þrír í þessu. Við erum með tvo bíla núna og það gengur bara vel. Það eru búnir að vera sömu kúnnarnir nánast allan tímann frá því að ég byrjaði. Menn spáðu því að ég yrði búinn að gefast upp eftir þrjá eða sex mánuði og að þetta væri ekki hægt. Ég er með þessa sömu kúnna enn í dag og gengur bara vel.“

Með tækjadellu

Baldur var spurður hvaða áhugamál hann sé með fyrir utan vinnuna.

„Þegar ég var krakki var ég með bíladellu, en svo þegar maður eldist er maður kominn með tækjadellu. Núna má segja að það sé allt saman í kringum vélknúin ökutæki, mótorhjól og bíla og vinnuvélar líka. Þetta hefur alltaf verið áhugamálið hjá mér og ég hef alltaf verið mikið í kringum það.“

Skemmtilegur tími með Postulunum

Baldur var einn af stofnfélögum bifhjólaklúbbsins Postulanna. Hann var spurður hvernig það hefði komið til.

„Postulana stofnuðum við 30. apríl árið 2000 ef ég man rétt. Ég og Sveinn Skorri Skarphéðinsson vorum alltaf tveir á hjólum þá en við vissum af mörgum sem voru á hjólum en það var aldrei hjólað saman. Þá fórum við í það að sjá hvort ekki væri hægt að hóa þessu liði saman. Það höfðu verið gerðar tilraunir til að búa til klúbb en aldrei gengið. Þessi ofvirkni sem er í manni varð til þess að maður fékk menn til að koma með sér í þetta. Þegar við stofnuðum þetta mættu 30–40 manns á stofnfundinn. Ég held að klúbburinn hafi þegar ég var að stýra honum orðið stærstur um 240 manns. Það var þannig að það voru margir í klúbbnum hérna þó þeir ættu heima í Reykjavík. Þetta var mjög skemmtilegur tími þegar maður var á kafi í þessu. Ég hef frekar lítið hjólað síðan yngri strákurinn minn fæddist. Ég hef verið meira í fornbílunum. Maður þarf að sinna fjölskyldunni líka. Maður getur ekki sett heila fjölskyldu á mótorhjól. Nú er allt að eldast þannig að kannski getur maður farið að hjóla aftur. Ég á alltaf mótorhjól en hef ekki verið mjög virkur í þeim geiranum. Það er gífurlega mikið til að mótorhjólum hérna og eins af fornbílum. Það er mikill áhugi hérna miðað við hausafjölda, bæði á fornbílum og mótorhjólum.“

Hellings saga á Selfossi sem við eigum að gera meira úr

Talið berst að uppbyggingu á Selfossi en hún er Baldri hugleikin.

„Við erum með besta stað á landinu hér á Selfossi fyrir ferðamenn og mér hefur alltaf fundist vanta afþreyingu fyrir þá. Við erum mitt á milli náttúruperla sem megnið af útlendingunum sem koma til Íslands kemur til að skoða. Hér er ekkert gert til að stoppa ferðamanninn af til að hann stoppi hér í tvo þrjá daga. Það er ofsalega mikið um það að fólk keyri bara hérna í gegn og stoppi annars staðar.

Þó að Selfoss sé ekki gamall bær þá er til hellings saga hérna sem hefur ekki varðveist nægilega vel. Ég veit að það er til víða, bæði í heimahúsum og annars staðar, ýmis konar dót sem gæti verði grunnur að safni, þó það væri bara um Selfoss. Það er alveg sama hvað menn segja um Mjólkurbúið og Kaupfélagið, hvort sem þeir eru kommúnistar eða sjálfstæðismenn, þessir tveir aðilar byggðu upp þetta sveitarfélag. Það hefur ekki mikið verið haldið utan um það sem tengist þessu. Það væri mjög gaman ef hægt væri að halda þessu til haga og reyna svo að vera með safn, eins og er verið að gera á Hvolsvelli. Þar er verið að búa til fullt af söfnum. Það er rétt að það lafi í því að það sé bókasafn hérna á Selfossi. Vandamálið til að geta haldið þessu úti er náttúrulega að fá húsnæði. Það er dýrasti hlutinn. Kannski opnast einhverjir möguleikar í nýja miðbænum.“

Vantar meiri áræðni á Selfossi

„Svo er annað sem mér finnst vanta hérna á Selfossi en það er meiri áræðni hjá fólki. Við þurfum að stofna fleiri fyrirtæki og hrinda fleiri hugmyndum í framkvæmd. Það er ekki nóg að tala bara um að þetta eða hitt vanti, menn þurfa að taka áhættu og framkvæma,“ segir Baldur að lokum.

Nýjar fréttir