Bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar verða á haustmánuðum fluttar úr núverandi húsnæði í verslunarmiðstöðinni í Sunnumörk í nýjan miðbæjarkjarna í Breiðumörk 20. Sérstakur leigusamningur við Reiti – skrifstofur ehf. um leiguna var lagður fram á bæjarstjórnarfundi 11. apríl sl. og samþykktur samhljóða.
Í bókun bæjarstjórnar segir að með þessu vilji bæjarstjórn leitast við að efla miðbæjarkjarna Hveragerðis sem óneitanlega breyttist töluvert með tilkomu verslumarmiðstöðvarinnar við Sunnumörk. Verslunarmiðstöðin muni einnig njóta góðs af þessari breytingu þar sem meira rými skapast fyrir núverandi rekstraraðila og ný spennandi verslunarrými verða til í Sunnumörk.