-0.5 C
Selfoss

Rósa Signý kvenfélagskona ársins

Vinsælast

Ársfundur SSK var haldinn að Goðalandi í Fljótshlíð 22. apríl sl. í umsjón Kvf. Einingar í Hvolhreppi og Kvf. Hallgerðar í Fljótshlíð. Fundurinn var vel sóttur af fulltrúum kvenfélaganna í Árnes- og Rangárvallasýslum.

Forseti, varaforseti og framkvæmdastjóri Kvenfélagasambands Íslands sátu einnig ársfundinn. Fundarkonur áttu saman helgistund í kirkjunni á Breiðabólstað, sem séra Elína Hrund Kristjánsdóttir annaðist. Að henni lokinni var haldið í Goðaland og gengið til fundarstarfa.

Í ársskýrslu Elinborgar Sigurðardóttur formanns SSK kom m.a. fram að að starfsárið væri helgað geðheilbrigðismálum. Á formannafundi sl. haust hafi verið fyrirlestur frá Batasetri Suðurlands og á þessum fundi voru Hugrún Vignisdóttir og Berglind Friðriksdóttir, sálfræðingar sem vinna hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, með mjög áhugaverðan fyrirlestur um kvíða og tilfinningavanda barna og unglinga. Á haustdögum verður efnt til málþings um geðverndarmál á Suðurlandi.

Styrkir voru veittir til Batasetursins og Samveru, sem aðstoðar við meðgönguþunglyndi. Elinborg greindi frá því að árið 2016 hafi SSK í nafni aðildarfélaganna gefið HSU kvennaskoðunarbekk, meðferðarstól á göngudeild, hjartalínurita og lífsmarkamæli. Verðmæti þessara gjafa er um 2,2 milljónir, sem greitt var fyrir úr Sjúkrahússjóð SSK, sem fjármagnaður er með sölu á kærleiksenglum og kortum. Kvenfélögin hafa einnig styrkt heilbrigðis- og öldrunarþjónustu og skólastarf á sínum svæðum með gjöfum.

Guðrún þórðardóttir forseti KÍ ávarpaði fundinn og kom víða við í máli sínu. Hún greindi fundarkonum frá því að kvenfélögin innan SSK hafi á undanförnum 10 árum gefið um 155 milljónir til samfélagsins. Fyrir landið allt er þessi tala um 500 milljónir. Hún sagði frá starfsemi KÍ; leiðbeiningastöð heimilanna, Húsfreyjunni og því að KÍ fylgist vel með lagafrumvörpum sem eru til meðferðar á Alþingi og sendi inn umsagnir og ályktanir til að styðja við málstað kvenna, heimilanna, aldraðra og sjúkra. Hún vakti líka athygli á stuðningi KÍ við varnir gegn heimilisofbeldi.

Tilkynnt var um val á Kvenfélagskonu ársins 2016. Elinborg Sigurðardóttir lýsti valinu og fór yfir glæsilegan feril Rósu Signýjar Finnsdóttur sem kvenfélagskonu í Kvf. Bergþóru í Ölfusi. Hún hlaut þessa viðurkenningu og fékk innrammað heiðursskjal því til staðfestingar ásamt áletruðu kökukefli, sem er farandgripur.

Að loknum fundi var farið í skoðunarferð í Múlakot og siðan snæddur kvöldverður í boði Rangárþings-eystra.

Ársfundur SSK samþykkti eftirfarandi ályktun um öldrunarmál:

Ályktun frá 89. ársfundi Sambands sunnlenskra kvenna sem haldinn er að Goðalandi í Fljótshlíð 22. apríl 2017.

Samband sunnlenskra kvenna lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu mála er varða aldraða og sjúka á Suðurlandi. Ársfundur SSK hvetur stjórnvöld bæði ríkis og sveitarfélaga, til að grípa strax til aðgerða og leggja aukið fjármagn í þennan málaflokk, svo unnt verði að bæta úr brýnni þörf og tryggja nauðsynlega umönnun á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Greinargerð:

Það er algjörlega óásættanlegt að tveimur dvalarheimilum í Árnessýslu með samtals 50 legurýmum var lokað án þess að nokkur ný kæmu í staðinn. Íbúum þessara dvalarheimila var komið fyrir á öðrum dvalarheimilum þar sem biðlistar voru fyrir, svo ekki styttust þeir!

Fundurinn mótmælir því að aldraðir og sjúkir séu fluttir langan veg í burtu frá heimili og ástvinum sínum, til dvalar um lengri eða skemmri tíma. Einnig mótmælir fundurinn því harðlega að hjón séu aðskilin gegn vilja sínum ef annað er veikara en hitt.

Við spyrjum hvers konar samfélag er það sem virðist ekki vilja veita elstu kynslóð sinni skjól. Fólkinu sem vann hörðum höndum og barðist fyrir ýmis konar réttindum sem okkur finnast sjálfsögð í dag. Kynslóð sem með ærinni fyrirhöfn byggði upp velferðarkerfi okkur öllum til handa. Velferðarkerfi sem í dag hefur síðan ekkert pláss á stofnunum þegar þetta fólk er orðin gamalt og veikburða. Hvar er þakklæti og virðing ráðamanna þjóðarinnar fyrir framlagi þessa fólks?

Ársfundur SSK hvetur stjórnvöld bæði ríkis og sveitarfélaga til að grípa strax til aðgerða og leggja aukið fjármagn í þennan málaflokk svo unnt verði að tryggja nauðsynlega umönnun bæði á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Jafnframt þarf að tryggja að næg hvíldarrými séu til staðar nærri heimabyggð fólks því þau eru ein helsta forsenda þess að aldraðir einstaklingar geti búið sem lengst inni á eigin heimilum.

Nýjar fréttir