3.9 C
Selfoss

Hádegisleiðsögn og beitt í bala á Eyrarbakka á Safnadaginn

Vinsælast

Í tilefni af Safnadeginum fimmtudaginn 18. maí næstkomandi býður Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka gestum upp á hádegisleiðsögn á sérsýninguna „Á því herrans ári“. Síðdegis verður Beitningaskúrinn opinn og þar sýnd handbrögð við beitningu.

Hádegisleiðsögnin verður í Húsinu í umsjón Þorsteins Tryggva Mássonar héraðsskjalavarðar og hefst stundvíslega kl. 12.00. Á sýningunni, sem er samstarfsverkefni Héraðsskjalasafns Árnesinga og Byggðasafns Árnesinga, er varpað nýju ljósi á myntsafn Helga Ívarssonar frá Hólum. Aðgangur ókeypis á leiðsögn og heitt á könnunni.

Beitingaskúrinn verður svo opnaður kl. 17.00 og þar taka Siggeir Ingólfsson og Björn Ingi Bjarnason vel á móti gestum. Þessir vaskir menn sýna hvernig skal beita í bala og hver veit nema þeir lumi á einhverjum gömlum sögum. Þarna gefst frábært tækifæri til að reka nefið inni í þennan gamla skúr þar sem tíminn hefur næstum staðið í stað. Fyrir ókunnuga þá er Beitingaskúrinn staðsettur í miðju þorpinu rétt við sjógarðinn, keyrt frá Eyrargötu. Léttar veitingar í boð, aðgangur ókeypis og opið til 19.00.

Nýjar fréttir