Á fundi bæjarráðs Hveragerðis sem haldinn var þann 27. apríl sl. var öllum lóðum við Hjallabrún úthlutað. Alls bárust 184 umsóknir um 14 lóðir.
Við úthlutunina hafði bæjarráð til hliðsjónar að reyna að tryggja að sem flestir umsækjendur gætu fengið lóð. Sú regla var samþykkt að hvert fyrirtæki eða forsvarsmenn þess gætu einungis fengið eina lóð og að aðilar með lögheimili á sama stað gætu einungis fengið eina lóð. Auk þeirra fjórtán sem fengu lóðir voru sjö aðilar til vara jafnframt dregnir út og geta þeir þá í þeirri röð sem þeir eru dregnir valið lóðir sem falla til baka til bæjarins. Framsal lóða er óheimil og mun bæjarráð ekki samþykkja nafnabreytingar á úthlutuðum lóðum fyrr en framkvæmdir teljast hafnar á lóðinni og lóðarleigusamningur hefur verið gefinn út. Úthlutun fellur úr gildi hafi lóðarhafi ekki skilað fullgildum aðaluppdráttum til byggingafulltrúa innan þriggja mánaða frá samþykkt um lóðarúthlutun og hafið framkvæmdir á lóðinni innan sex mánaða frá sama degi.
Fulltrúi sýslumanns Kristján Óðinn Unnarsson hafði yfirumsjón með útdrætti um lóðirnar.