-3.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ég er aldrei að lesa bók – ég er alltaf að lesa bækur

Ég er aldrei að lesa bók – ég er alltaf að lesa bækur

0
Ég er aldrei að lesa bók – ég er alltaf að lesa bækur
Guðmundur Brynjólfsson.

„Ég er aldrei að lesa bók – ég er alltaf að lesa bækur,“ segir Guðmundur Brynjólfsson lestrarhestur Dagskrárinnar. Guðmundur Brynjólfsson býr á Eyrarbakka og stundar ritstörf meðfram því að vera djákni í Þorlákshafnarprestakalli og stundakennari við Listaháskólann. Síðasta bók Guðmundar, Líkvaka, kom út árið 2015 og í haust er væntanleg ný skáldsaga sem enn hefur ekki hlotið endanlegan titil.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Ég er aldrei að lesa bók. Ég er alltaf að lesa bækur. Nú er ég að lesa Sigurjónsbók sem er afmælisrit til heiðurs dr. Sigurjóni Árna Eyjólfssyni einum okkar helsta guðfræðingi en þar skrifar margt ágætt fólk fróðlegar greinar. Þá er ég að lesa ritgerðir efti G.K. Chesterton sem var breskur höfundur – og er líklega best þekktur hér á landi fyrir að vera höfundur leynilögreglusagna um Föður Brown sem samnefndir sjónvarpsþættir eru gerðir eftir. En Chesterton skrifaði um ólíklegustu efni og var mikill heimspekingur og samfélagsrýnir – og auk þess ágætur guðfræðingur. Og svo er ég að lesa hin og þessi rit um fagurfræði – eða grípa niður í þau réttara sagt; en það er vegna skáldsögunnar sem ég er með í smíðum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég les eiginlega allt nema vísindaskáldsögur og svo hef ég litla þolinmæði fyrir ævintýrum á borð við Hringadróttinssögu, Hobbitann og þess háttar þvælugraut í löngu máli. Sagnfræði, heimspeki, guðfræði, bókmenntafræði, leiklistarfræði eru allt fræðigreinar sem ég er að fást við með einum eða öðrum hætti á hverjum degi. Stundum vegna vinnu minnar sem djákni, stundum vegna fræðiskrifa, stundum vegna kennslustarfa – eða til þess að nota þegar ég skrifa mín eigin verk.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Ég er alltaf með margar bækur í takinu, les í skorpum. Les þó mun minna þegar ég er sjálfur á kafi í skriftum. Þá les ég bara það nauðsynlegasta; blöðin og netið og fletti því upp sem varðar það sem ég er að skrifa.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Mínar uppáhaldsbarnabækur eru tvær, Sagan um Jens Pétur og Maggi varð að manni og þær eru eftir sama höfundinn; hinn danska A. Chr. Westergaard en sá skrifaði yfir sjötíu bækur og flestar fyrir börn. Fyrri bókinn er um þrákálfinn Jens Pétur sem elst upp við ströng kjör og á erfitt skap. Hin er um Magga sem fer frá Jótlandsströndum og til Kaupmannahafnar og lendir þar í vondum félagskap – einskonar danskur Óliver Twist. Þetta eru gamlar bækur – og í dag geri ég mér ekki grein fyrir því hvað það var í þeim sem heillaði mig.

Lest þú fyrir börnin þín?
Ég hef lesið frekar lítið fyrir börnin mín; en ég hef gert mikið af því að segja þeim sögur. Það eru þá sögur sem ég spinn upp úr mér á kvöldin þegar þær hafa verið að leggjast til svefns. Oftast eru það sögur af prinsum og prinsessum, nú eða hundum, köttum og fuglum með mannlega eiginleika – sömu karakterarnir aftur og aftur. Það er mikilvægt að lesa eða segja sögur, það auðgar orðaforða barna og temur þau við að frásögn er eðlileg.

Hver er framtíð bókarinnar?
Það er yfirleitt óþarfi að hafa áhyggjur af því sem menn halda að rétt sé að hafa áhyggjur af. Framtíð bókarinnar er björt.