1.7 C
Selfoss

Skyrgerðin opnuð í Hveragerði

Vinsælast

Elfa Dögg Þórðardóttir athafnakona opnaði fyrir skömmu Skyrgerðina í Hveragerði, en hún var fyrst opnuð þar í bæ í sama húsi árið 1930. Húsið sem var reist sem þinghús héraðsins og fyrsta skyrgerð landsins var eitt það fyrsta sem reist var í Hveragerði og á sér langa og mikla sögu sem tengist bænum og bæjarbúum sterkum böndum. Elfa Dögg hefur um áraraðir starfað í ferðaþjónustu í bænum en hún keypti gistiheimilið Frost & funa árið 2012. Því hefur hún stýrt af myndarskap frá þeim degi, stækkaði það strax árið 2013 og bætti þar að auki við veitingastaðnum Varmá árið 2014 en það er eitt vinsælasta veitingahús Suðurlands.

Skyrið er að slá í gegn
„Við ætlum að sýna gestunum okkar hvernig skyr er framleitt og leyfa því að smakka. Þannig er þetta sögu- og matartengd ferðaþjónusta”, sagði Elva Dögg. „Hér er glæsilegt gistiheimili, fallegt bístró, glæsilegur matsölusaður og loksins aftur skyrframleiðsla en það er auðvitað gaman þar sem skyrið er að slá í gegn út um allan heim.”

Fyrsta jógúrtið hér á landi
Ölfushreppur byggði þinghúsið í Hvergerði árið 1930 og Mjólkurbú Ölfusinga byggði skyrgerð á jarðhæð þinghússins á sama tíma. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni húsasmíðameistara ríkisins sem teiknaði margar af fallegustu byggingum landsins. Í skyrgerðinni var framleitt skyr sem var ein helsta söluvara Mjólkurbúsins, einnig var þar fyrsta framleiðsla á jógúrti hér á landi sem var selt í glerflöskum og kallað heilsumjólk.

Menningarsetur Hvergerðinga
Allt frá því að húsið var byggt hefur það verið eins konar hjarta bæjarins með þinghald, matargerð og menningu sem miðju. Frá miðri síðustu öld hefur hótel- og veitingastaðarekstur verið í húsinu og þinghúsið verið nokkurs konar menningarsetur Hvergerðinga og á tímabili einn aðal samkomustaðurinn. Þar voru leiksýningar, bíósýningar, haldin brúðkaup, dansiböll og tónleikar landsfrægra listamanna.

Hlutverk þinghússins endurvakið
Elfa Dögg keypti þinghúsið og skyrgerðina í desember 2015 með það í huga að endurvekja þetta hlutverk hússins, glæða það lífi og endurgera skyrgerðina til að gera þessum ríka þætti matar- og menningarsögu svæðisins góð skil. Framkvæmdir hafa staðið yfir í húsinu síðan þá. Fyrsti áfanginn var opnaður í fyrra, Café og Bístró á jarðhæðinni og á efri hæðinni opnaði á sama tíma vandað gistiheimili. Núna opnar svo síðasti hlutinn eða endurgerð Skyrgerðarinnar sjálfrar og menningarsalurinn þar sem þinghald Ölfus og Hvergerðinga fór fram á síðustu öld en þar verður núna aðal veitingasalur Skyrgerðarinnar.

Upplifun fyrir hug, hönd og bragðlauka
Erlendur Eiríksson leikari og matreiðslumeistari hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Skyrgerðarinnar en það má segja að styrkleikar hans séu að fullu nýttir því heimsókn í Skyrgerðina á að vera í senn upplifun fyrir hug, hönd og bragðlauka.

Gamaldags skyrgerð
Sögu hússins sem ein elsta skyrgerð landsins verður haldið á lofti og framleiðsla á gamaldags pokaskyri er þegar hafin í húsinu að nýju. Byggð var skyrgerð í gömlum stíl inn í miðju húsinu og notast er við mjólk beint frá bænum Hvammi sem er síðasta kúabúið í Ölfusi, í framleiðsluna. Nú geta gestir komið og fylgst með hvernig skyr er búið til, fengið fræðslu um skyrgerð og sögu þess ásamt því að smakka og finna muninn á gamaldags skyri og skyrinu eins og það er gert nú á dögum.

Kolagrillaðar kótiletturr
Veitingahús Skyrgerðarinnar verður opið daglega og sérhæfir sig í lambakjötinu góða þar sem kolagrillaðar kótilettur í sérútbúnum kolagrillsofni verða aðalsmerkið ásamt öðru góðgæti úr sveitinni í kring. Yfir miðjan daginn er boðið upp á úrval af heimabökuðum hnallþórum, vöfflum og brauðmeti og skyrið verður rauði þráðurinn í mörgum af réttum staðarins. Gistiheimili staðarins er með 13 nýuppgerðum herbergjum sem vandað var við að útbúa á sem hlýlegastan máta. Innifalið í næturdvöl gesta er síðan heilsusamlegur og þjóðlegur morgunverður.

Nýjar fréttir