-8 C
Selfoss

Fjölbreytt myndlistarnám fyrir alla

Vinsælast

Myndlistardeild Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur vaxið og dafnað undanfarin ár og á hverri önn er boðið upp á afar fjölbreytt úrval af áföngum. Hægt er að taka listnámsbraut til stúdentsprófs sem og grunnnám í listum. Einnig er vinsælt að velja staka áfanga sér til yndisauka og sjóndeildarhringsvíkkunnar. Fólk á öllum aldri, hvort sem það er í föstu námi í FSu eða að sinna öðru hversdagslegu amstri, er hvatt til þess að skoða þann möguleika. Á listabrautinni, auk myndlistarinnar, er hægt að fara í fatahönnun, leiklist, tónlist, listasögu o.fl.

Næsta haust verður margt áhugavert í boði í myndlistinni. Fyrst ber að nefna þá tvo áfanga sem alltaf eru í gangi: þetta er annars vegar áfanginn Teikning þar sem farið er í grunninn á allri teikningu og má segja að þarna sé fólki kennt að teikna! Hins vegar er það áfanginn Litir og form, þar sem litafræði, litablöndun og myndbygging er megininntakið. Veggjalistaráfanginn hefur vakið mikla athygli á landsvísu og verður framhald á þessum ævintýraáfanga í haust.

Endurvinnsla og hönnun er áfangi þar sem nemendur kynnast þeim óþrjótandi möguleikum sem endurnýting býður upp á í listsköpun og hönnun en meginuppistaða í öllum verkum áfangans er hráefni sem annað hvort hefur hreinlega átt að henda eða komin er tími á að öðlist nýtt og jafnvel breytt líf og annan tilgang. Áfanginn og hugsunin á bak við hann á sannarlega heima í því neyslusamfélagi sem við lifum í – að geta nýtt allt það hráefni sem fellur til frekar en að henda og henda – og útkoman er oft stórkostleg. Ögrandi áfangi sem sannarlega reynir á ímyndunaraflið og sköpunargáfuna.

Allir ofangreindir áfangar krefjast ekki neins fornáms og hægt er að taka fleiri en einn í einu.

Fyrir lengra komna (þá sem þegar hafa lokið Teikningu og Litir og form, því sem áður féll undir sjónlist) verður boðið upp á áfangann Maður og efni, en eins og nafnið gefur til kynna er mannslíkaminn meginviðfangsefnið vítt og breytt frá öllum hliðum og unnið er með ólík efni og aðferðir.

Áhugasamir geta kynnt sér áfangana betur með því að skoða fsu.is, fara á Fsu myndlist á Facebook eða koma í heimsókn í myndlistardeildina þar sem kennarar taka vel á móti öllum gestum.

Nýjar fréttir