3.4 C
Selfoss

Teikningar af breyttum Svarfhólsvelli kynntar

Vinsælast

Golfklúbbur Selfoss fagnaði nýju golfsumri síðastliðinn laugardaginn með kynningu á stækkun Svarfhólsvallar og aðlögun hans að fyrirhugaðri nýrri brú yfir Ölfusá og tengingu hennar við þjóðveg, sem þverar 2. og 3. braut.

Edwin Roald golfvallahönnuður og Hermann Ólafsson landslagsarkitekt greindu frá yfirstandandi skipulagsvinnu, sem þegar hefur leitt í ljós hvernig nýjar brautir geta best legið og tengst þeim sem áfram verða leiknar án þess að valda kylfingum miklu ónæði.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir á þessu ári við þrjár nýjar brautir, svo þær geti leyst 1., 2. og 3. braut af hólmi þegar framkvæmdir eiga að hefjast við brú og veg, en þeim fylgir einnig brottnám allra raflína ofanjarðar, nema Búrfellslínu 2 norðan núgildandi vallar, sem þverar hvergi braut. Vonast er til að jarðvinna við brottnám línanna geti farið saman við gerð golfbrauta og að röskun á leik verði í algeru lágmarki.

Gert er ráð fyrir að núgildandi fyrsta braut verði æfingasvæði, sem kylfingar geti slegið á innan úr nýju, fyrirhuguðu, fjölnota æfinga- og áhaldahúsi. Núverandi æfingasvæði víkur fyrir nýrri braut til að tengjast 4. brautinni á bökkum Ölfusár, sem margir þekkja. Hinar tvær nýju holurnar eru fyrirhugaðar neðan og austan við sjálfan Svarfhólinn, á hægri hönd þegar ekið er að golfskála.

Að þessari aðlögun lokinni er gert ráð fyrir að skipta stækkun vallar í áfanga og að gerðar verði 2–4 brauta lykkjur í hverri lotu, á viðbótarlandi til norðurs, meðfram vogskornum árbökkunum þar sem koma má fyrir mörgum eftirminnilegum brautum.

Samhliða aðlögun og stækkun Svarfhólsvallar er fyrirhugað að efla almenna útivist á svæðinu og tengja hana betur við golfskála, sem þá gæti gegnt fjölþættara hlutverki og nýst öllum Selfyssingum og gestum, innlendum sem og erlendum.

Nýjar fréttir