-6.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Hlaupabóla

Hlaupabóla

0
Hlaupabóla
Anna Guðríður Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur MSc. og verkefnastjóri ung- og smábarnaverndar Heilsugæslu Selfoss.

Á hverju ári veikist fjöldi barna hér á landi af hlaupabólu en hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur og talið er að nær öll börn fái hana fyrir fullorðinsaldur.

Einkenni
Sjúkdómurinn lýsir sér með bólum eða blettum á húð sem verða að vessafylltum blöðrum og síðan vessandi sárum. Mikill kláði getur fylgt bólunum, sem geta myndast alls staðar á búk, í andliti, í hársverði, á handleggjum, á fótleggjum, á slímhúðir og á kynfæri. Auk þess sem slappleiki, hiti, höfuðverkur, lystarleysi og særindi í hálsi geta fylgt sjúkdómnum.

Orsakir
Veiran Herpes varicella-zoster er orsökin, hún smitast með snerti- eða úðasmiti. 10-21 dagar geta liðið frá því að einstaklingur smitast og þar til hann fær vessafylltar blöðrur. Getur einstaklingur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær útbrot og er smitandi þar til allar blöðrur eru þornaðar. Sjúkdómurinn varir í 7-10 daga hjá börnum en oft lengur hjá fullorðnum.

Sá sem hefur fengið hlaupabólu fær hana aldrei aftur en hins vegar tekur veiran sér bólfestu í taugaendum líkamans og getur síðar valdið sjúkdómi sem kallast ristill. Einstaklingur með ristil getur smitað aðra af hlaupabólu.

Helstu fylgikvillar sem geta komið í kjölfar hlaupabólu eru húðsýking, þvagfærasýking, bólga í augum og lungnabólga. Í sumum tilfellum getur hlaupabóla valdið heilabólgu og hjartavöðvabólgu.

Meðferð
Meðferð felst einkum í að draga úr einkennum og lina kláðann.

Gott er að hafa umhverfið svalt, fara reglulega í sturtu til að skola svitann, minnka kláðann og lækka hitann eða nota kalda bakstra. Til eru lyf til að bera á blöðrurnar svo sem sinkáburður, sinkpúður, mentholáburður, mentholspritt eða staðdeyfikrem. Ef kláðinn er það mikill að hann trufli svefn er hægt að gefa kláðastillandi lyf sem eru sams konar lyf og gefin eru við ofnæmi, ferðaveiki og svefnleysi.

Auk þess er hægt að meðhöndla hlaupabóluna með sértækum veirulyfjum en best er að nota þau á fyrstu dögum sjúkdómsins.

Forvarnir
Hægt er að bólusetja gegn hlaupabólu frá 12 mánaða aldri og er bóluefnið mjög virkt og öruggt. Mælt er með tveimur sprautum og eiga sex vikur að líða á milli skammtanna.

Bóluefnið fæst í apóteki gegn lyfseðli.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Anna Guðríður Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur MSc. og verkefnastjóri ung- og smábarnaverndar Heilsugæslu Selfoss