Það ætti að vera á allra vitorði að Háskóli Íslands hefur ákveðið að færa starfsstöð sína frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Rekstur húsnæðis skólans og annarra mikilvægra mannvirkja fellur því í hendur ríkisins og mikil óvissa hefur skapast um þær eignir sem lokið hafa hlutverki sínu innan Háskólans. Mannvirkin þjóna samt sem áður mikilvægu hlutverki fyrir íbúa Laugarvatns og allra hinna í sveitarfélaginu Bláskógabyggð.
Eins og stendur mun íþróttahús og sundlaug Laugarvatns loka í júní og engar ákvarðanir um framhaldið liggja fyrir. Í júní mun mjög mikilvægur hluti af menningu staðarins, félagslíf, skóla- og atvinnustarfssemi falla í djúpa gryfju.
Nú er orðið ljóst að Bláskógabyggð mun á allra næstu mánuðum undirrita samstarfssamning við Embætti landlæknis um heilsueflandi samfélag. Verkefnið er fyrst og fremst forvarnarstarf fyrir íbúa þar sem unnið er markvisst að því að bæta heilsu allra innan samfélagsins og er það meðal annars gert með því að auðvelda og auka aðgengi allra að hreyfingu. Ef íþróttahús og sundlaug Laugarvatns lokar þá eru forsendur verkefnisins orðnar að litlu fyrir íbúa í dalnum. Þrátt fyrir að hægt sé að sækja þjónustuna í Reykholt þá verður að hafa í huga að íþróttahúsið þar er mjög lítið og annar alls ekki allri þeirri starfssemi sem á sér stað innan sveitarfélagsins yfir vetrartímann. Það er því augljóslega verið að brjóta á þeim þætti sem snýr að samfélagslegri ábyrgð og með því að skerða slíka grunnþjónustu eru forsendur íbúa til búsetu orðnar verulega skertar.
Við viljum efla sveitarfélagið, gera það eftirsóknarvert til búsetu og fá til okkar ungt og kraftmikið fólk. Það mun tæplega hafast ef svo fer sem horfir og því gríðarlega mikilvægt að teknar séu ákvarðanir með hagsmuni allra að leiðarljósi og horfa lengra en til dagsins í dag. Ég skora því á stjórnvöld að horfa til framtíðar, taka skynsamlega ákvörðun og bregðast við þeirri þörf sem hefur skapast í Bláskógabyggð, fyrir samfélagið allt.
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, íþrótta- og heilsufræðingur.
Leiðir stefnubreytingu til heilsueflandi samfélags í Bláskógabyggð 2017.