-5.4 C
Selfoss
Home Fréttir Kajakræðari lést eftir hrakninga við Þórsárós

Kajakræðari lést eftir hrakninga við Þórsárós

0
Kajakræðari lést eftir hrakninga við Þórsárós

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út kl. 21:13 í gærkvöldi til að bjarga tveimur mönnum úr sjónum við Þjórsárós en þeir höfðu lent í vandræðum á kajökum í briminu við ósinn. Þyrlur Landhelgisgæslunnar, björgunarsveitir, sjúkralið og lögregla fóru þegar á staðinn.

Á síðu lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að þegar björgunarlið kom á vettvang hafi kajakarnir sést á hvolfi austan við ósinn. Allan tímann var símasamband við annan manninn og þyrluáhafnirnar sáu til mannanna í briminu mun vestar. Þyrluflugmönnunum tókst að hífa annan manninn upp í aðra þyrluna og hinn síðar í hina þyrluna. Flogið var með mennina á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.

Ölduhæð var svo mikil að ekki var unnt að koma út björgunarbátum. Það er mat lögreglumanna á staðnum að það hafi skipt sköpum við björgunina að tvær þyrlur hafi komið á staðinn.

Á heimasíðu lögreglunnar kemur fram í dag að annar kajakræðaranna sem bjargað var úr sjónum sé látinn. Ekki verði, að svo stöddu, greint frá nafni hans. Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.