-1.1 C
Selfoss

Ég er ástríðufullur lesandi og verð skotin í rithöfundum

Vinsælast

Estelle Marie Burgel er lestrarhestur Dagskrárinnar þessa vikuna. Hún er fædd frönsk árið 1971, orðin íslensk í dag, kokkur, kennari, þriggja unglinga móðir, vel gift, uppistandari á fundum og sturtuóperusöngvari, metal rokk öskrari í bílnum, óhrædd við að leyfa gráa hárinu að njóta sín, lífir sig inn í ofurhetjumyndir, söngvabíómyndir og ævintýramyndir. Kunni lögin í Singing in the rain og Fiðlaranum á þakinu fyrir 10 ára aldur. Finnst gaman að syngja með útvarpinu í búðunum og þolir illa dag án hláturs.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Er ekki að lesa neitt um þessar mundir nema kannski uppskriftarbækur sem ég safna. Hef nýlega ákveðið að safna uppskriftarbókum á eins mörgum tungumálum og tækifæri gefst.

Annars las ég mína fyrsta bók eftir Yrsu Sigurðardóttir Sér grefur gröf um daginn og var mjög hrifin.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Ég er svona ástríðafullur lesandi, verð skotin í rithöfundi og byrja að lesa allar bækur eftir hann sem ég finn. Svo koma eyðimerkurtímabil þar sem ég snerti ekki bók. Trúlega er einhver melting í gangi. Er á því tímabil núna. Ég les helst á ensku en tek svona skorpur á íslensku og frönsku.

Ef þú værir rithöfundur hvers konar bækur myndir þú skrifa?
ÚÚÚÚFFF, eeeerr, draugasögur held ég og sögur um mannleg samskipti.

Getur þú sagt frá bók sem hafði sérstaklega mikil áhrif á þig?
Það eru nú margar bækur The unlikely pilgrimage of Harold Fry og The lovesong of Miss Queenie Hennessy eftir Rachel Joyce hrærðu mig djúpt. Hún skrifaði Perfect sem ég átti erfitt með að hrista af mér alveg eins og Home is where the heart is eftir Billie Letts. Myndir verða eftir í huganum og það tekur tíma að losa sig við þær. Peter Shaffer hafði lika þannig áhrif á mig í gegnum leikritin sin. Það er skylda að lesa Harold Fry og svo Queenie Hennessy á einu bretti. Allar Harry Potter bækurnar snertu hjartastrengi. Ég las dauðsfall Snape sjö sinnum og grét í hvert skipti. Sögupersónur sem eru einmana og jafnvel vita ekki hversu einmanna þær eru eiga pláss í huga minum og hjarta. Þær fá að búa þar í mörg ár.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Le petit Prince eftir Antoine de Saint Exupéry því ég átti söguna lesna á plötu (45 snúninga) með leikaranum Gérard Philippe sem las söguna svo vel að ég varð ástfangin af honum 7 ára gömul. Le petit Nicolas eftir Sempé er líka í miklu uppáhaldi því hún er franskast saga sem hægt er að lesa. Ég hlæ ennþá af ævintyrum Nicolas og vina hans.

Geta bækur breytt viðhorfi manna?
Auðvitað geta bækur breytt viðhorfi manna. Hvað eiga To kill a mockingbird eftir Harper Lee og Le deuxième sexe eftir Simone de Beauvoir og Candide eftir Voltaire sameiginlegt? Þær komu nýrri hugsun í gang í þjóðfélaginu. Ég held að einlægni, hreinskilni, húmor (sem reyndar de Beauvoir skortir í skrifum sinum) sé leiðin. En hvað veit ég?

Nýjar fréttir