-6.6 C
Selfoss

Vortónleikar Jórukórsins í Skálholtsdómkirkju

Vinsælast

Vortónleikar Jórukórsins 2017 verða haldnir í Skálholtsdómkirkju þann 3. maí nk. kl. 20.00 og Selfosskirkju þann 7. maí kl. 20.00.

Í ár er áhersla lögð á íslensk ljóð og lög, bæði gömul og ný og sum alveg splunkuný. Stefán Þorleifsson kórstjóri hefur samið lög við ljóð eftir skáldkonurnar Gerði Kristnýju, Elísabetu Jökulsdóttur og Evu Rún Snorradóttur. Ljóð skáldkvennanna þriggja fjalla meðal annars um Bravóblöð, auglýsingabæklinga og kramin kattarhræ, en einnig dýpri leyndarmál, kleinur og pilluát. Efnisskráin í ár er mjög metnaðarfull og auk fyrrnefndra laga verða á efnisskrá gamalkunn þjóðlög og íslensk dægurlög eftir Ásgeir Trausta, Gunnar Þórðarson og Björk, svo einhver séu nefnd.

Mannauður kórsins verður nýttur til fulls, því ekki er nóg með að Stefán útsetji og semji lög sérstaklega fyrir kórinn, heldur eru einsöngvarar og hljóðfæraleikarar einnig úr röðum kórsins, ásamt Ingibjörgu Erlingsdóttur á kontrabassa.

Það er því með sérstakri tilhlökkun og gleði sem Jórukórinn býður bæjarbúa og nærsveitarfólk velkomið á vortónleika Jórukórsins 2017 og vonast til að sjá sem flesta. Miðasala við innganginn og í forsölu hjá kórkonum.

Nýjar fréttir