-6.1 C
Selfoss

Fjöldi gesta mætti á opið hús á Reykjum

Vinsælast

Björgvin og Guðríður hjá LbhÍ ásamt Katrínu H. Árnadóttur og Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra.

Sumardaginn fyrsta var haldið opið hús á Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum. Löng hefð er fyrir því að skólinn opni húsakynni sín á þessum degi enda gróður í gróðurhúsum löngu farinn að blómstra og dafna og tilvalið að leyfa landsmönnum að taka forskot á sumarsæluna. Fjöldi gesta mætti til að njóta fjölbreyttrar dagskrár sem stóð frá morgni og fram á kvöld.

Á markaðstorgi var hægt að kaupa íslenskt gæðagrænmeti sem og aðrar vörur frá garðyrkjutengdum aðilum. Börnum var boðið upp á andlitsmálun og á útisvæðum skólans var hægt að fá alvöru skógarmannakaffi, ketilkaffi og kakó. Fyrirtæki kynntu þjónustu sína og vörur og nóg var fyrir börnin að gera í kennslurými skrúðgarðyrkjubrautar. Hátíðardagskrá var í garðskálanum þar sem umhverfis- og garðyrkjuverðlaun voru veitt. Milli atriða í hátíðardagskránni var boðið upp tónlistaratriði.

Heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2017 hlaut Guðfinnur Jakobsson, garðyrkjufræðingur og frumkvöðull í lífrænni og lífelfdri ræktun. Guðfinnur gat ekki verið viðstaddur afhendinguna og tók sonur hans, Gunnþór Guðfinnsson við verðlaununum í hans stað úr hendi menntamálaráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar en þau hlaut Dvalar- og hjúkrunarheimilið Ás og tók Valdimar Ingi á móti verðlaununum.

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, afhenti svo umhverfisverðlaun Ölfuss en þau hlaut Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri hjá Orku náttúrunnar, fyrir brautryðjendaverkefni við uppgræðslu á Hellisheiði.

Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar hlaut Katrín H. Árnadóttir og fyrirtæki hennar, Ecospíra. Ecospíra framleiðir heilsufæði, byggt á spíruðum fræjum, baunum og korni.

Nýjar fréttir