5 C
Selfoss
Home Fréttir Hjólað óháð aldri

Hjólað óháð aldri

0
Hjólað óháð aldri

Um mánaðamótin apríl-maí eiga hjúkrunarheimilin Fossheimar og Ljósheimar á Selfossi von á hjóli fyrir heimilismenn. Hjólið er rafknúið þríhjól þar sem einn eða tveir farþegar sitja í þægilegu sæti fyrir framan hjólarann.

Þessi hjól hafa verið að ryðja sér til rúms um allan heim undir nafninu Hjólað óháð aldri (cyclingwithoutage.org, cyclingudenalder.dk). Nokkur slík hjól eru nú þegar til hérlendis og hafa gefið góða raun.

Selfoss má teljast eitt hentugasta svæði landsins fyrir hjólreiðar og því tilvalið að fá slíkt hjól hingað. Verkefnið er samfélagsverkefni þar sem sjálfboðaliðar gefa kost á sér til að hjóla með heimilisfólki. Þeir sem verða hjólarar þurfa að sitja námskeið til að mega hjóla með farþega. Slíkt námskeið verður haldið hér á Selfossi um mánaðamótin.

Sem hjólari skapar þú frábært tækifæri til að fleiri geti upplifað heiminn og notið þess að vera virkir vegfarendur í eigin nágrenni og fá vind í vanga. Hjólið er rafknúið og létt að stíga svo allir sem eru á annað borð við fulla heilsu, geta gerst hjólarar.

Einnig mun verða leitað eftir samstarfi við fyrirtæki á Selfossi um að gerast hjólavinir. Sem dæmi um hjólavini í Reykjavík eru kaffihús og ísbúðir sem bjóða hjólurum og farþegum upp á hressingu í hjólreiðartúrnum.

Kynningarfundur um verkefnið Hjólað óháð aldri, verður mánudaginn 24. apríl kl. 20 í fundarsal HSU á Selfossi. Allir eru velkomnir.

F.h. undirbúningshóps,
Inga Sjöfn Sverrisdóttir, sjúkraþjálfari HSU,
Guðlaug Einarsdóttir, deildarstjóri Fossheima og Ljósheima.