-4.8 C
Selfoss
Home Fréttir Ábyrgðarkeðjan má ekki rofna

Ábyrgðarkeðjan má ekki rofna

0
Ábyrgðarkeðjan má ekki rofna
Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður NV kjördæmis.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem lýtur að því að sett verði lög um keðjuábyrgð, þ.e. ábyrgð verktaka á því að undirverktakar hans standi skil á samningsbundnum launum, greiði opinber gjöld og hagi starfsemi sinni almennt samkvæmt lögum og reglum íslensks vinnumarkaðar.

Ástæða þess að VG lagði fyrrnefnt þingmál fram er að misferli á vinnumarkaði hefur farið vaxandi undanfarið og birtist það meðal annars í brotum gegn skattalöggjöf og félagslegum undirboðum sem beinast sérstaklega að útlendingum og ungu fólki.

Með lögum um keðjuábyrgð verktaka yrði leitast við að koma í veg fyrir undirboð á vinnumarkaði, brotum á ákvæðum kjarasamninga og vinnulöggjöf, félagslegum undirboðum og ýmsum tegundum af skattsvikum og jafnvel mansali en allt eru þetta afleiðingar þess ábyrgðarleysis sem hefur einkennt hluta íslensks vinnumarkaðar undanfarin ár. Svört starfsemi sem þessi felur vitaskuld í sér brot gegn starfsfólkinu sem verður fyrir því að fá ekki laun sín greidd og samfélaginu öllu sem ekki fær sín réttmætu gjöld og hún grefur jafnframt undan samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem rekin eru á eðlilegum forsendum og virða lög og kjarasamninga. Hert lagaumgjörð sem treystir veiku hlekkina í ábyrgðarkeðjunni er öflugasta vopnið gegn félagslegum undirboðum og kennitöluflakki og fyrrnefnt þingmál VG stuðlar að því að því verði beitt.

Jákvæðar umsagnir enda mikið í húfi
Þær umsagnir sem hafa komið um mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð taka nær allar undir það sjónarmið að nauðsynlegt sé að innleiða keðjuábyrgð og tryggja þurfi að undirverktakar greiði þau opinberu gjöld sem þeim ber að inn af hendi og virði lög og kjarasamninga.

Í umsögn embættis Skattrannsóknarstjóra kemur fram að 22 verktakafélög séu nú til rannsóknar hjá embættinu vegna gruns um að þau hafi reynt að komast undan lögbundnum skattgreiðslum með því að koma ábyrgð á greiðslum skatta yfir á undirverktaka. Samanlögð upphæð þessara mála nemur 2 milljörðum sem sýnir hversu mikið er í húf og hvað samfélagið getur verið að tapa miklum tekjum til sameiginlegra verkefna fyrir utan svikin við launafólk.

Er veikur hlekkur í stjórnkerfinu?
Eina neikvæða umsögnin um mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð barst frá Samtökum atvinnulífsins. Þau töldu ekki rétt að lögbinda keðjuábyrgð og álíta að þeim vanda sem hún beinist gegn væri hægt að mæta með öðrum hætti. Fyrrverandi framkvæmdastjóri SA er nú orðinn félagsmálaráðherra. Hann ætti að þekkja vel til þessara mála en velur þó að taka málið lausatökum í nýju frumvarpi sem hann lagði fram á dögunum um keðjuábyrgð, en það nær eingöngu til erlendrar verktakastarfsemi hér á landi en ekki til alls vinnumarkaðarins. Þetta hefir ASÍ gagnrýnt og telur að samkomulag hafi verið um að hægt væri að taka aðra aðila á vinnumarkaði inn án lagabreytinga. Að sjálfsögðu á allur vinnumarkaðurinn að vera undir og víða í Evrópu hefur keðjuábyrgð verið innleidd enda ekki vanþörf á í vinnuumhverfi þar sem félagsleg undirboð eru mikið vandamál.

Skýr krafa um ábyrga starfshætti og óslitna keðju
Nokkrir stórir verkkaupar hér á landi hafa þegar sett ákvæði um keðjuábyrgð í samninga sína við verktaka, meðal annars Landsvirkjun, Ríkiskaup, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær og viðurkennt þannig mikilvægi og nauðsyn ábyrgðarkeðjunnar. Málið hefur og verið tekið upp í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði enda ólíðandi að félagsleg undirboð og skattastuldur eigi sér stað án þess að samfélagið komi vörnum við.

Við eigum öll heimtingu á því að hvert og eitt þeirra fyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi, hvort sem þau eru innlend eða erlend, virði kjarasamninga, greiði laun í samræmi við þá og haldi í heiðri þau réttindi sem launafólk hefur öðlast með kjarabaráttu sinni. Þingmál VG um keðjuábyrgð stuðlar að þessu og yrði bæði launafólki og sómakærum atvinnurekendum hagur í að það hlyti samþykki.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna í NV-kjördæmi.