2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Málefni hjúkrunarheimila á Suðurlandi

Málefni hjúkrunarheimila á Suðurlandi

0
Málefni hjúkrunarheimila á Suðurlandi
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.

Þessi grein eru viðbrögð mín við ágætri grein Söndru Dísar Hafþórsdóttur um „Málefni aldraðra á Suðurlandi“ sem birtist í Dagskránni 12. apríl sl. Þrátt fyrir fyrirsögnina er greinin aðallega um málefni hjúkrunarheimila í sveitarfélaginu Árborg og má það teljast eðlilegt vegna erfiðrar stöðu þeirra mála þar. Það er ánægjulegt að bæjarfulltrúar Árborgar hafi tekið þessi mál upp og eru farin að tjá sig um þau á opinberum vettvangi. Vonandi veit það á gott.

En það eru atriði í greininni sem mér finnst vert að bregðast svolítið við sem íbúi og þátttakandi í umræðu um hjúkrunarheimili í Árborg eða ætti e.t.v. frekar að ræða um Selfoss? Sandra Dís kvartar undan því að umræðan snúist um að níða bæjarfulltrúa fyrir aðgerðaleysi í þessum málum undanfarna áratugi. Ég lít alls ekki svo til að umræðan hafi verið e.k. níð um bæjarfulltrúana. Frekar finnst mér að þeir hafi verið hvattir til góðra verka og litið er til þeirra um leiðsögn og forystu í þessum málum. Sandra Dís gerir talsvert úr því að málefni aldraðra séu á hendi ríkisins og sveitarfélög eigi bara alls ekki að blanda sér þar í. Að mínu mati er þetta smávægilegur misskilningur hjá Söndru Dís. Það er rétt að málaflokkurinn almennt er á hendi ríkisins en með verulegum undantekningum þó. Sveitarfélög reka margvíslega þjónustu fyrir aldraða svo sem heimaþjónustu, dægrastyttingu af ýmsu tagi, rekstur þjónustuíbúða, aðstöðu fyrir handverk, þjónustu í þjónustumiðstöðvum svo sem fót- og hársnyrtingu og þannig má endalaust telja upp. Að auki eru sveitarfélög um land allt aðilar að rekstri hjúkrunarheimila og einnig þeirra fáu dvalarheimila sem enn finnast. Sandra Dís bendir á að sveitarfélög eigi alls ekki að reka hjúkrunarheimili því þau skili bara halla og séu til vandræða í fjárhag sveitarfélaganna. Það er rétt að hjúkrunarheimili eru víða rekin með halla og þá er sama hvert rekstrarformið er. Um er að ræða beinan rekstur sveitarfélaga, rekstur einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana svo eitthvað sé nefnt. Þetta er gert sem þjónusta við íbúa í viðkomandi sveitarfélagi og þá verðum við að þola að hluti af útsvarinu okkar eða fasteignasköttum renni til þessa verkefnis. Stundum fást bætur vegna hallareksturs af fjárlögum en heldur hefur dregið úr því undanfarin ár. Það er nú svo að sveitarfélög hafa afskipti af mörgum málum þó það sé ekki beinlínis neglt í lög að þau skuli gera það. Hollt er í því sambandi að rifja upp ákvæði 7. gr. Sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 en þar segir:

7. gr. Almennar skyldur sveitarfélaga.

Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Ráðuneytið gefur árlega út leiðbeinandi yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga, flokkuð eftir því hvort verkefni eru skyldubundin eða ekki.
Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.
Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum“

Bendi sérstaklega á eftirfarandi úr þessari 7. grein: „Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.“

Þarna er kveðið á um að sveitarfélög „skuli“ vinna að velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært er á hverjum tíma. Það er ekki valkvætt heldur skylda.

Það hefur gjarnan gengið svo til á undanförnum áratugum að það hafa verið sveitarstjórnir og sveitarstjórnarfulltrúar sem hafa gengið fram fyrir skjöldu og knúið á um að reist séu hjúkrunarheimili í byggðarlögum vítt og breitt um landið. Undirritaður þekkir ekki dæmi um að ríkið hafi komið að fyrra bragði og boðið upp á samvinnu um byggingu hjúkrunarheimila. Sveitarstjórnarfulltrúar hafa undantekningalítið verið þar í fararbroddi og einnig þar sem dvalarheimilum hefur verið breytt í hjúkrunarheimili en nokkur dæmi finnast um slíkt, jafnvel á Suðurlandi. Í lögum er kveðið á um að skipting kostnaðar við byggingu hjúkrunarheimila skuli vera þannig að sveitarfélög greiða 15% en ríkið 85%. Víða hafa sveitarfélög tekið á sig mun hærra hlutfall af byggingakostnaði svo sem á Hellu þar sem sveitarfélögin greiddu 30% af byggingarkostnaði nýrrar álmu fyrir heilabilaða. Þetta hafa sveitarfélög gert til þess að viðkomandi byggingar komist á og verði að veruleika. Vitað er um enn hærra hlutfall byggingakostnaðar sem sveitarfélög í viðkomandi byggðarlögum hafa tekið á sig eða allt að 60%.

Á Selfossi hefur ríkið rekið Sjúkrahús Suðurlands til margra áratuga. Fyrst sem e.k. spítala eða skýli við Austurveginn sem síðar varð að „Ljósheimum“ og svo Sjúkrahús Suðurlands á bakka Ölfusár. Nú heitir þetta Heilbrigðisstofnun Suðurlands og er myndarleg stofnun sem rekin er af metnaði og dugnaði þeirra sem þar ráða. Fjárveitingar eru því miður naumar og mættu gjarnan stóraukast til þess að efla þjónustu í heimabyggð og fækka tilefnum til þess að sækja heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarinnar. Innan þessarar stofnunar eru reknar sjúkradeildir sem bera nöfnin „Fossheimar“ og „Ljósheimar“. Þar eru vistaðir aldraðir sjúklingar sem þurfa sólarhringsumönnun. Þessi rekstur ríkisins hefur undanfarin ár leyst að hluta þörf fyrir hjúkrunarrými á Selfossi. En nú er málum svo komið að margir eru á biðlista og einkareknum hjúkrunarheimilum hefur verið lokað. Fyrir 20 árum og fyrr var bent á að þessi staða gæti komið upp og að sveitarfélagið þyrfti að bregðast við og gangast fyrir byggingu hjúkrunarheimilis. Ef einhver gagnrýni hefur verið í umræðunni undanfarið, er það helst, að mörgum finnst að það sé æði seint sem viðbrögð koma frá bæjarstjórninni. En því ber að fagna að á næstu árum mun rísa hjúkrunarheimili á Selfossi þó það verði e.t.v. minna en vonir stóðu til.

Þannig er það nú að þó umræðan geti verið hvöss á köflum þegar fólki hitnar í hamsi, eins og við það að upplifa að öldruðum hjónum sé stíað í sundur af fullkomnu tillitsleysi við allar mannlegar tilfinningar, þá er oftast ætlunin að eiga samskipti við fulltrúa okkar sem við kjósum til þess að sinna okkur sbr. 7. gr. Sveitarstjórnarlaganna. Engum dettur níð í hug, en jákvæð gagnrýni er öllum holl og svo líður senn að því að við veljum okkur fulltrúa í sveitarstjórnina til nýs fjögurra ára tímabils. Ég hlakka til að taka e.t.v. þátt í uppbyggilegri umræðu um framtíð öldrunarmála á Suðurlandi og þá ekki síst í sveitarfélaginu Árborg. Sunnlendingar líta til okkar sveitarfélags um forystu og fyrirmynd á mörgum sviðum og kappkosta ber að rísa undir þeim væntingum.

Eigið góða daga og málefnalega umræðu í bæjarstjórninni.

Selfossi á páskum 2017,

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Álfhólum 10, 800 Selfoss.