-8.2 C
Selfoss

Uppáhaldsbækurnar mínar eru þær sem ég get dregið lærdóm af

Vinsælast

Brynja Sólveig Pálsdóttir er lestrarhestur Dagskráinnar þessa vikuna. Hún stundar nám til stúdentsprófs við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún er 18 ára og fædd og uppalin í Hrunamannahreppi.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Þar sem ég er í miklum lestraráföngum í FSu er ég núna aðeins að lesa fyrir þá. Meðal annars er ég að lesa Óreiðu á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttir í Kvennabókmenntaáfanga í íslensku. Ég hafði samt í einhvern tíma ætlað mér lesa hana og fyrri bókina Karitas án titils. Sú sem vakti áhuga minn á þessum bókum er mamma mín Margrét Larsen. Hún hafði lesið þær og sagt mér frá þeim. Það er mjög áhugavert að lesa skáldsögu um óhefbundna konu á eftirstríðsárunum og ferðalag hennar.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Ég les oft í eyðum á milli kennslustunda í skólanum en oftast á kvöldin rétt fyrir svefninn. Ef ég er í fríi og er að lesa mjög spennandi bók les ég oft eina bók á dag.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Uppáhaldsbækurnar mínar eru þær sem ég get líka dregið einhvern lærdóm af til dæmis bækur sem blanda saman sögu og / eða goðafræði. Bókaserían Leyndardómurinn um hinn ódauðlega Nicolas Flamel eftir Michael Scott er ein af mínum uppáhaldsseríum. Þar er skáldskap, sögu og goðafræði blandað saman ásamt týpískum „unglingavandamálum“ sem gerir manni kleift að tengja sig við sögurnar. Serían um Beverly Grey er samt án efa uppáhalds bókaserían mín. Ég las þær á aldrinum 13-15 ára. Bækurnar eru svipaðar Nancy Drew sögunum en persónur og aðstæður þeirra raunverulegri og því er auðveldara að samsama sig þeim. Ég hef lengi ætlað mér að lesa þær aftur. Bækurnar eru 26 talsins en því miður hef ég aðeins fundið 14 bækur í íslenskri þýðingu og vantar því endalokin á söguseríuna.

Getur þú sagt frá bók sem hafði sérstaklega mikil áhrif á þig?
Engann þarf að öfunda
eftir Barböru Demick. Bókin samstendur af frásögnum sex flóttamanna frá þriðju stærstu borg Norður-Kóreu og fléttast frásagnir þeirra saman. Sögur þeirra segja frá nánast ólýsanlegum hryllingi sem enginn ætti að þurfa að upplifa. Maður áttar sig mjög vel á því hversu hræðilegir atburðir eru að gerast þar. Við lesturinn er auðvelt að átta sig á hvað við höfum það gott. Ég myndi segja að bókin væri skyldulesning.

Hver er uppáhalds barnabókin þín og hvers vegna?
Ég hugsa að það sé Pollýanna. Ég hef lesið hana þrisvar sinnum. Bókin léttir andann mjög og er skemmtileg aflestrar.

Geta bækur breytt viðhorfi manna?
Algjörlega. Maður öðlast oft nýja sýn á aðstæður sínar ef bækurnar fjalla um lífið í fjarlægum löndum eins og bækur Khaled Hosseini. Góðar og vandaðar bækur víkka almennt sjóndeildarhringinn.

Nýjar fréttir