-5.2 C
Selfoss

Lið Vesturkots sigraði liðakeppni Uppsveitadeildarinnar

Vinsælast

Uppsveitadeildinni 2017 lauk með mikilli sýningu frábærra tölt- og skeiðhrossa í Reiðhöllinni á Flúðum, föstudagskvöldið 31. mars sl.

Fjörið hófst í forkeppninni í tölti þar sem Þórarinn Ragnarsson og Hringur frá Gunnarsstöðum I sigruðu með nokkrum mun, eða 7,63 í einkunn. Matthías Leó Matthíasson og Nanna frá Leirubakka komu þar næst með 7,30 í einkunn. Þriðja inn í A-úrslit urðu þau Hanne Smidesang og Roði frá Hala með einkunnina 6,93. Síðasta örugga sæti í A-úrslitum féll í skaut Guðjóns Sigurliða Sigurðssonar og Lukku frá Bjarnastöðum með einkunnina 6,77.

Þeir voru mun jafnari knaparnir í B-úrslitum, en þar komu efstir inn Hans Þór Hilmarsson og Bragur frá Túnsbergi með einkunnina 6,63. Rétt þar á eftir voru þeir félagarnir Bjarni Bjarnason og Hnokki frá Þóroddsstöðum með 6,60. Þriðja inn í B-úrslit voru þau Ragnheiður Hallgrímsdóttir og Snillingur frá Sólheimum með einkunnina 6,57. Tveir síðustu keppendurnir inn í B-úrslitin voru þau Guðjón Örn Sigurðsson og Kotra frá Steinnesi með 5,83 og Óskar Örn Hróbjartsson á Sigurrós frá Galtastöðum með einkunnina 5,80.

Að loknu stuttu hléi hófst keppnin í fljúgandi skeiði. Það er mikil keyrsla. Á rúmum hálftíma renna 63 skeiðsprettir í gegnum húsið. Eins og gengur lágu ekki allir sprettir og hraðinn var mismikill á hestum og knöpum.

Þegar yfir lauk kom í ljós að fljótasta parið voru þau Matthías Leó Matthíasson og Blikka frá Þóroddsstöðum með tímann 2,97. Í kjölfarið sigldu Þórarinn Ragnarsson og Funi frá Hofi með sléttar 3 sekúndur. Rétt á eftir komu þau Hans Þór Hilmarsson og Assa frá Bjarnarhöfn á tímanum 3,02. Bjarni Bjarnason og Randver frá Þóroddsstöðum voru 1/100 úr sekúndu á eftir með tímann 3,03 sekúndur. Aðrir keppendur fóru hægar yfir.

Þegar hér var komið sögu, og gestir í húsinu búnir að jafna sig aðeins á fjörinu og setunni eftir skeiðið, var komið að B-úrslitum í tölti. Eftirvæntingin lá í loftinu þegar keppnin hófst. Þegar upp var staðið urðu þeir efstir og jafnir, Bjarni Bjarnason og Hnokki frá Þóroddsstöðum og Hans Þór Hilmarsson á Brag frá Túnsbergi með einkunnina 7,06. Í þriðja sæti í B-úrslitum urðu Ragnheiður Hallgrímsdóttir og Snillingur frá Sólheimum með 6,67, fjórðu urðu Sigurður Örn Sigurðsson og Kotra frá Steinnesi með 6,61 í einkunn og lestina ráku Jónas Már Hreggviðsson á Kolbeini frá Hrafnsholti með einkunnina 6,06.

Þá var komið að stóru stundinni. A-úrslit í tölti að hefjast og sex keppnispör á vellinum. Bjarni og Hnokki náðu sér ekki á strik og hrepptu 6. sætið með 6,89 í einkunn. Hans Þór og Bragur enduðu í fimmta sæti með 7 í einkunn. Rétt fyrir ofan með 7,06 í einkunn settust í fjórða sætið Guðjón Sigurliði Sigurðsson og Lukka frá Bjarnastöðum. Spennan fór nú að magnast eftir sérdeilis glæsislega töltsýningu. Hanne Smidesang og Roði frá Hala fengu 7,44 í einkunn og hlutu að launum þriðja sætið. Matthías Leó Matthíasson og Nanna frá Leirubakka fengu annað sætið með einkunnina 7.67. Sigurvegarar töltsins í Uppsveitadeildinni 2017 urðu því þeir Þórarinn Ragnarsson og Hringur frá Gunnarsstöðum I með frábæra einkunn, 7,89.

Stigakeppni einstaklinga var mjög spennandi. Efstu tveir keppendurnir slitu sig frá hópnum og sigraði Matthías Leó Matthíasson með 82 stig. Þórarinn Ragnarsson kom næstur með 80 stig. Í þriðja sæti varð Hanne Smidesang með 62 stig. Heildarstigakeppni einstaklinga og liða verður birt á vefsvæði Reiðhallarinnar von bráðar.

Í liðakeppninni sigraði lið Vesturkots með 198 stig, en lið Subway varð annað með 187 stig. Þriðja sætið féll liði Kílhrauns í skaut með 140 stig.

Hestamannafélögin í Uppsveitunum Logi, Smári og Trausti fá bestu þakkir fyrir skemmtilega keppni í vetur. Breiddin í keppninni fer sífellt vaxandi og metnaður keppenda er mikill að standa sig sem best. Það sýnir sig að hestar eru að koma betur undirbúnir til keppni og munurinn á milli atvinnumanna og leikmanna hefur dregist saman.

Nýjar fréttir