-0.5 C
Selfoss

Aðför að ferðaþjónustunni á landsbyggðinni

Vinsælast

Á aðalfundi Markaðsstofu Suðurlands sem haldinn var á Hótel Heklu 31. mars sl. var samþykkt ályktun þar sem tekið er heilshugar undir ályktun félagsfundar SAF frá 30. mars 2017 og mótmælt harðlega fyrirhuguðum breytingum á virðisaukaskattskerfinu sem munu koma harðast niður á minni fyrirtækjum á landsbyggðinni. Þar segir að fyrirhugaðar breytingar virðist illa ígrundaðar og að þær muni hafa þau áhrif að draga úr sókn ferðamanna út á landsbyggðina vegna aukins kostnaðar, þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda.

Ályktun SAF:
Verði virðisaukaskattur á ferðaþjónustu tvöfaldaður eins og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa boðað mun það hafa í för með sér grafalvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtæki og starfsfólk í ferðaþjónustu um land allt. Afleiðingarnar verða alvarlegastar fyrir landsbyggðina sem á nú þegar undir högg að sækja þegar kemur að ferðaþjónustu. Mikil gengisstyrking og kostnaðarhækkanir stefna nú þegar afkomu fyrirtækja í greininni í mikla hættu. Með boðuðum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar versnar samkeppnishæfni Íslands til mikilla muna. Ferðaþjónustan er grunnstoð í íslensku atvinnulífi og með óyfirveguðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar er vegið að framtíðarmöguleikum greinarinnar og íslensku efnahagslífi. Ferðaþjónusta er í eðli sínu alþjóðleg atvinnugrein. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki starfa því á alþjóðlegum markaði og í samkeppni við erlenda áfangastaði þar sem ferðaþjónustan er almennt í lægri þrepum virðisaukaskattskerfisins. Það hefur sýnt sig að þau lönd sem eru t.a.m. með gististaði í efri skattþrepum hafa lotið í lægra haldi í samkeppni við aðra áfangastaði. Tillögur um hækkun á virðisaukaskatti vega þannig alvarlega að samkeppnishæfni Íslands. Þá lýsa Samtök ferðaþjónustunnar yfir miklum vonbrigðum með samráðsleysi stjórnvalda þegar kemur að eins umfangsmiklum breytingum og fyrirhugaðar hækkanir eru. Fjölmennur félagsfundur Samtaka ferðaþjónustunnar skorar á ríkisstjórnina að láta af áformum um hækkun virðisaukaskatts á íslenska ferðaþjónustu.

Nýjar fréttir