-6.7 C
Selfoss

Þrenn hjón sæmd gullmerki á aðalfundi Umf. Selfoss

Vinsælast

Aðalfundur Ungmennfélags Selfoss árið 2017 fór vel fram í félagsheimilinu Tíbrá fimmtudaginn 6. apríl sl. Á fundinum lagði Guðmundur Kr. Jónsson formaður fram ársskýrsla félagsins auk þess sem ársreikningar félagsins voru samþykktir. Þar kom fram að í fyrsta skipti fór velta á samstæðureikningi félagsins yfir 300 milljónir króna og vekur athygli að félagið greiddi rúmlega 180 milljónir króna í laun og launatengd gjöld sem setur það í hóp stærstu launagreiðenda á Selfossi.

Verðlaunahafar á aðalfundi f.v. Þuríður f.h. frjálsíþróttadeildar, Guðbjörg, Rikharð Atli og Margrét. Ljósmynd: UMFS/GJ.
Verðlaunahafar á aðalfundi f.v. Þuríður f.h. frjálsíþróttadeildar, Guðbjörg, Rikharð Atli og Margrét. Ljósmynd: UMFS/GJ.

Á fundinum var íþróttafólk Umf. Selfoss fyrir árið 2016 krýnt en það er fimleikafólkið Margrét Lúðvígsdóttir og Rikharð Atli Oddsson en á seinasta ári urðu þau þrefaldir meistarar með blönduðu liði Selfoss í hópfimleikum auk þess sem þau unnu til bronsverðlauna með blönduðu liði Íslands á Evrópumótinu í Slóveníu.
Þá fékk Guðbjörg Hrefna Bjarnadóttir fékk afhentan Björns Blöndals bikarinn fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins og frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss fékk afhentan UMFÍ bikarinn sem deild ársins fyrir öflugt grasrótarstarf og góðan árangur yngri flokka.

Á fundinum voru einnig veitt gull- og silfurmerki félagsins og bar til tíðinda að þrenn hjón voru sæmd gullmerki þ.e. Þröstur Ingvarsson og Guðbjörg Hrefna Bjarnadóttir, Helgi Sigurður Haraldsson og Sigríður Anna Guðjónsdóttir og Einar Guðmundsson og Þuríður Ingvarsdóttir.

Fjórða hjónaparinu var veitt silfurmerki þ.e. Sverrir Einarsson og Sigrún Helga Einarsdóttir auk þess sem Kristín Bára Gunnarsdóttir, Sebastian Alexandersson og Garðar Garðarsson voru sæmd silfurmerki.

Að lokum var framkvæmdastjórn félagsins endurkjörin en hana skipa Guðmundur Kr. Jónsson formaður, Sverrir Einarsson gjaldkeri, Viktor S. Pálsson ritari auk Hjalta Þorvarðarsonar og Jóhanns Helga Konráðssonar meðstjórnenda.

Nýjar fréttir