Selfyssingar léku fyrsta leikinn í 8-liða úrslitum á Íslandsmóti karla í handbolta í gær gegn Aftureldingu og fór leikurinn fram að Varmá í Mosfellssveit. Selfyssingar byrjuðu vel og voru yfir á upphafsmínútunum. Mosfellingar náðu að jafna leikinn er á leið og var staðan 8:9 fyrir Selfoss þegar flautað var til hálfleiks.
Í síðari hálfleik byrjuðu Mosfellingar mun betur og komust fljótlega yfir. Leikur Selfoss gekk lítið síðasta korterið og gengu heimamenn á lagið og unnu að lokum sigur 31:17.
Mörk Selfoss skoruðu: Elvar 7, Teitur 4, Einar 4, Guðni 1 og Haukur 1. Einar varði 9 skot.
Mörk Aftureldingar: Ernir Hrafn 7, Árni Bragi 6, Pinnonen 4, Kristinn Hrannar 4, Guðni Már 2, Elvar 2, Gunnar Kristinn 2, Gestur Ólafur 2, Jóhann 1 og Þrándur 1. Davíð varði 10 skot.
Næsti leikur er í Vallaskóla miðvikudaginn 12. apríl kl. 19:30. Þann leik verða Selfyssingar einfaldlega að vinna ef þeir ætla sér áfram í úrslitakeppninni. Stefnt er á að fylla húsið og freista þess að ná upp stemningu eins og var í úrslitakeppnunum hár á árum áður.