-7 C
Selfoss

Hollvinasamtök menningarsalar Suðurlands stofnuð

Vinsælast

Stofnfundur Hollvinasamtaka menningarsalar Suðurlands var haldinn á dögunum og skráðu 36 einstaklingar sig á stofnskrá samtakanna. Á fundinum fór Jón Sæmundsson frá Verkís yfir samantekt og endurhönnun ásamt kostnaðaráætlun fyrir menningarsalinn sem Sveitarfélagið Árborg fékk Verkís til þess að gera. Erindið var fróðlegt og sköpuðust miklar umræður um tillögur Verkís. Að því loknu fóru stofnfélagar saman og skoðuðu salinn. Einnig ávörpuðu fundinn Sveinn Ægir Birgisson frá ungmennaráði Árborgar, Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður og Bergsveinn Theódórsson sem fer fyrir hópi áhugafólks.

Á fundinum ríkti jákvæður andi og bindur hópurinn vonir við að ríkið komi inn á Suðurland með peninga í menningarsalinn og sveitarfélögin ásamt fleiri aðilum. Við komu salarins myndi skapast stórbætt aðstaða fyrir áhugaleikfélög á Suðurlandi, öflugt kórastarf á svæðinu sem og annað menningarstarf og ráðstefnur. Hollvinasamtökin hafa stofnað fésbókarsíðu undir nafni Hollvinasamtaka menningarsalar Suðurlands.

Stjórn samtakanna er þannig skipuð: Bergsveinn Theódórsson formaður og aðrir í stjórn eru María Marko, Guðmunda Bergsdóttir, Sveinn Ægir Birgisson og Bjarmi Skarphéðinsson. Varastjórn skipa Jakob Ingvarsson og Jóna Sigurbjartsdóttir. Hægt er að skrá sig í hollvinasamtökin hjá stjórnarfólki og á fésbókarsíðunni.

Nýjar fréttir